Framkvæmdir við gagnaver Verne Holding stöðvaðar - Reiðarslag segir Kristján Gunnarsson
Framkvæmdum við gagnaver Verne Holding hafa verið stöðvaðar. Tugir iðnaðarmanna sem hafa verið við störf við mikla uppbyggingu húsnæðis fyrirtækisins fengu bréf um að leggja verkfærunum þangað til annað kæmi í ljós. „Þetta er reiðarslag og ömurlegt innleg í atvinnumálin á Suðurnesjum. Þetta er nánast eina stóra verkefnið sem verið hefur í gangi að undanförnu. Ég veit ekki hvað á yfir okkur Suðurnesjamenn að ganga,“ sagði Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis í samtali við Víkurfréttir.
Vinnusvæðinu á Ásbrú þar sem framkvæmdir hafa staðið yfir hefur verið lokað og allir starfsmenn hafa verið sendir til síns heima. Miklar vonir hafa verið bundnar við þetta verkefni sem mun ef af verður, skapa hundruð starfa á Suðurnesjum. Nú er það komið í algera óvissu.