Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdir við gagnaver á döfinni
Mánudagur 27. september 2010 kl. 08:45

Framkvæmdir við gagnaver á döfinni


Framkvæmdir við fyrsta áfanga tölvuhýsingarmiðstöðvar í Vogum fara senn að hefjast og er unnið að því að ljúka breytingum við deildiskipulag til að hægt að sé að hefjast handa. Byggingarreitir á þremur lóðum verða stækkaðir á iðnaðarsvæði austan vegarins við innkomuna í bæinn til að koma fyrir þeim 6000 fermetra þjónustubyggingum sem hýsa mun starfsemi gagnaversins.

Viljayfirlýsing var undirrituð í sumar milli fyrirtækisins Midgard hf og Sveitarfélagsins Voga um byggingu tölvuhýsingarmiðstöðvar í Vogum.  Gert er ráð fyrir að byggja 11 hýsingareiningar í þremur áföngum auk þjónustubyggingar, samtals um 6.000 fermetra. Er stefnt að því að taka fyrsta áfangann í notkun upp úr næstu áramótum.

Fjárfesting vegna uppbyggingar gagnaversins í  Vogum verður um  5 milljarðar króna gangi áætlanir eftir.  Gert er ráð fyrir að um 25-30 tæknimenntaðir starfsmenn muni starfa beint við fullbyggða hýsingarmiðstöðina. Þá eru ótalin margfeldisáhrif verkefnisins sem geta orðið talsverð fyrir sveitarfélagið Voga, segir Eirný Valsdóttir, bæjarstjóri.

Nú þegar er búið að ganga frá viðskiptasamningum sem munu tryggja rekstur fyrsta áfanga hýsingarmiðstöðvarinnar strax frá upphafi.  Meðal þeirra fyrirtækja sem munu nýta sér þjónustu Midgard frá byrjun eru Orange Business Services sem er hluti af France Telecom.

Eirný segir þessa framkvæmd vera ákveðinn gæðastimpil fyrir sveitarfélagið. Það hafi ráðist af góðum fjarskiptatengingum en um sveitarfélagið liggja þrír ljósleiðarar.  Þá hafi samgöngur og nálægðin við höfuðborgarsvæðið og alþjóðaflugvöllinn ráðið miklu í þessu sambandi. Sveitarfélagið sé því góður valkostur fyrir ýmsa starfsemi.
---

VFmynd/elg - Nýja tölvuhýsingarmiðstöðin mun rísa á þessu svæði í Vogum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024