Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdir við Byggðasafnið á Garðskaga ganga vel
Mánudagur 14. febrúar 2005 kl. 11:37

Framkvæmdir við Byggðasafnið á Garðskaga ganga vel

Framkvæmdir við nýbyggingu Byggðasafnsins á Garðskaga ganga vel. Núverandi safnhús er fyrir löngu orðið alltof lítið og því var ráðist í stækkun safnsins með 676 fermetra nýbyggingu. Safnhúsið er að hluta á tveimur hæðum en á efri hæðinni er gert ráð fyrir kaffiteríu sem tekur um 50 manns í sæti. Þar er glæsilegt útsýni yfir fjöruna og hafið með vitana í forgrunni.
Fyrsta skóflustungan að nýju byggðasafni var tekin síðasta sumar og að sögn verktakans, Braga Guðmundssonar, verður húsinu skilað fullbúnu í maí á þessu ári og um miðjan júní er fyrirhugað að opna sýningu í húsinu. Viðamiklu vélasafni Guðna Ingimundarsonar verða gerð skil á safninu, auk fjölmargra muna sem ekki hefur verið hægt að setja upp í núverandi húsakosti. Guðni hefur verið ötull við að gera upp tæki og vélar fyrir safnið.


Á vef Sveitarfélagsins Garðs segir um Byggðasafnið á Garðskaga:
Byggðasafnið var opnað fyrir almenning 26. nóvember 1995, safnið var í fyrstu aðeins opið um helgar á sumrin. En síðustu árin hefur verið opið alla daga frá maí- september, á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Safnið hefur til sýningar ýmsa muni sem tengdust búskaparháttum til sjós og lands. Þar má t.d. nefna ýmsa hluti sem voru notaðir við heyskap, mjaltir, potta, pönnur, útvörp o.f.l. hluti sem notaðir voru á heimilum. Ýmis handverkfæri svo sem tréhefla, hallamál,vinkla, hamra, axir, stórviðarsagir o.f.l.

Trérennibekkur sem er yfir eitt hundrað ára gamall. Þá eru ýmis verkfæri sem notuð voru til þess að hamra járn í eldi, handsnúin eldsmiðja og ýmsar tangir og járn.

Talsverður hluti af safninu eru ýmsir munir sem voru notaðir við fiskveiðar og til verkunnar á fiski. Allt frá litlum línukrókum upp í stórvirkari veiðarfæri svo sem síldar og þorskanet.

Á safninu er áttæringur opinn bátur smíðaður árið 1913, hann var notaður til fiskveiða með handfærum og þorskanetum á fyrri hluta síðustu aldar. Á útisvæði eru fimm aðrir bátar bæði dekkaðir og opnir.

Mjög sérstakt vélasafn það eina á landinu er til sýnis, en safnið á fjörutíu vélar af ýmsum gerðum,  mest litlar bátavélar sem notaðar voru í opnum bátum. Þar má nefna glóðarhausvél, gufuvél,bensín og díselvélar, elsta vélin er frá árinu 1924 þá er á safninu fyrsta díselvél sem kom í bíl til Íslands árið 1934.

Staðsetning safnsins er mjög góð, þar sem líka má skoða tvo vita sem leiðbeint hafa Sjófarendum fyrir Garðskaga í yfir eitt hundrað ár. Eldri vitinn var byggður árið 1897 og er mjög vel við haldið. Nýrri vitinn var byggður árið 1944 og er hæsti viti landsins og er enn í notkun.

Ferðafólki er boðið að fara upp í báða vitana á opnunartíma safnsins. Í gamla vitanum er stórt kort af Garðskagaflösinni, sem eru grynningar út af
Garðskaga, en þar hafa mörg skip og bátar strandað á árunum 1903-1988 strönduðu á milli 30 og 40 skip á flösinni. Inn á kortið er skráð nöfn skipana og staðir þar sem þau strönduðu.

Myndirnar: Efri myndin er af húsinu eins og það er í dag en sú neðri af Guðna Ingimundarsyni þegar hann tók fyrstu skóflustunguna í júní í fyrra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024