Framkvæmdir við 17 milljarða kr. kísilver í Helguvík hefjast í sumar
„Þessir samningar eru fyrsta mikilvæga vísbendingin um að þau stóru atvinnuskapandi verkefni sem við höfum ótrauð þurft að kosta og berjast fyrir eru raunhæf og skammt undan. Þetta er stór dagur fyrir okkar samfélag,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ eftir undirritun samninga fyrir kísilver í Helguvík. Heildarfjárfesting við verkefnið er 17 milljarðar króna og mun skapa um 300 störf á byggingartíma og um 100 störf til frambúðar þegar verksmiðjan verður risin.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við kísilverið hefjist í Helguvík í byrjun sumars. Verksmiðjuhús mun rísa á 20 mánuðum og miðað er við að starfræksla kísilversins hefjist um mitt ár 2013. Framtíðarstörf við verksmiðjuna munu verða fyrir sérfræðinga af ýmsu tagi, iðnaðarmenn og ófaglærða.
„Góðar aðstæður til fjarfestinga á Íslandi, ásamt því hvað landið liggur vel við flutningum, gerir það að ákjósanlegum stað fyrir þessa verksmiðju. Við væntum þess að upphaf byggingar og reksturs muni ganga vel og að Íslenska kísilfélagið verði fyrirmyndarfélag á Íslandi,“ sagði Alan Kestenbau, starfandi stjórnarformaður Globe Speciality Metals Inc., sem er meirihlutaeigandi í Íslenska kísilfélaginu ehf. Globe Speciality Metals Inc er félag á Nasdaq hlutabréfamarkaðnum og Alen þurfti að víkja af undirskriftafundinum til að fara á fréttamannafund vegna þessara tíðinda til upplýsingar fyrir Nasdaq.
Steingrímur Sigfússon, fjármálaráðherra sagði þetta stóran dag fyrir Suðurnesin og landið allt. „Þetta er veður til að skapa,“ sagði hann og vísaði til blíðunnar í dag og bætti við: „Þetta er fyrsta stóra atvinnutækifærið sem hefur litið dagsins ljós eftir kreppu. Við þurfum fleiri svona daga. Án efa mun þetta verða mikil auglýsing fyrir Ísland. Að hér séu góð tækifæri og aðstæður til að fjárfesta. Það er það sem við þurfum“.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra tók í sama streng og sagði kísilverið gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska þjóðarbúið og Suðurnesin og vonaðist til að álver myndi líka komast í höfn.
Viðtöl við ráðherra, bæjarstjóra og forráðamenn kísilvers eru væntanleg hér á vf.is.
Það voru margir samningar sem tengjast byggingu kísilvers undirritaði í listasal Duus-húsa í dag. Hér má sjá borðið með þeim sem þurftu að skrifa undir. VF-myndir/pket.