Framkvæmdir tefjast vegna vinnslu nýrra húsnæðislaga
- Við íbúðir í Sandgerði fyrir fólk með fötlun
Vegna vinnslu nýrra húsnæðislaga hefur ekki reynst unnt að fara af stað af fullum krafti í framkvæmdir við fimm íbúða raðhús við Lækjamót í Sandgerði. Byggingin er samstarfsverkefni Landssamtakanna Þroskahjálpar og Sandgerðis. Í drögum að framvarpi að lögunum kemur fram að Íbúðalánasjóði væri óheimilt að veita stofnframlag vegna íbúðarhúsnæðis ef bygging þess er hafin eða kaupa átt sér stað fyrir gildistöku laganna.
Nýju lögin tóku gildi 14. júní síðastliðinn og kveða meðal annars á um að Íbúðalánasjóði og sveitarfélögum sé heimilt að veita stofnframlög að uppfylltum ákveðnum skilyrðum vegna byggingar eða kaupa íbúðarhúsnæðis sem ætlað er leigjendum sem eru undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Stofnframlag ríkis nemur samkvæmt lögunum 18 prósent af áætluðu stofnvirði og er háð því skilyrði að sveitarfélögin leggi til 12 prósent stofnframlag.
Í fjárlögum er gert ráð fyrir 1.500 milljón krónum í stofnframlög og í reglugerð er kveðið á um að minnsta kosti 25 prósent af því fari til sveitarfélaga og tengdra aðila. Ljúka þarf hönnun byggingarinnar svo unnt sé að áætla stofnvirði hennar. Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs Sandgerðisbæjar í vikunni og lýsti ráðið yfir ánægju með að fyrir lægi hverjir vinna að hönnun hússins og hvatti til þess að unnið yrði hratt og örygglega svo mæta megi þörf fyrir húsnæði svo fljótt sem verða má.