Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdir hafnar við sprungufyllingar í Grindavík
Frá framkvæmdasvæðinu. Myndir: Jón Steinar Sæmundsson
Föstudagur 30. ágúst 2024 kl. 12:34

Framkvæmdir hafnar við sprungufyllingar í Grindavík

Í vikunni hófust framkvæmdir við sprungufyllingar á fimm stöðum í Grindavík, þ.e. við Sjávarbraut, Eyjasundi, Víkurbraut, Verbraut og Víkurtúni. Áætlað er að framkvæmdunum ljúki í október. Framkvæmdirnar eru hluti af aðgerðaáætlun um viðgerðir á götum, opnum svæðum og öðrum innviðum í Grindavík. Aðgerðirnar miða að því að tryggja virkni og öryggi innviða, þar á meðal á gatnakerfi, lögnum og opnum svæðum. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.

Á næstu dögum hefst vinna við að girða af óörugg svæði innanbæjar en áætlað er að lagðir verði 6,8 km af mannheldum girðingum. Gert er ráð fyrir að hægt sé að leggja 350 metra af girðingum á dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í framhaldinu verður ráðist í framkvæmdir við Hópsbraut, Suðurhóp og Grindavíkurhöfn en þær framkvæmdir eru allar í fyrsta forgangi.

Í forgangi tvö eru framkvæmdir við Víkurhóp, frekari framkvæmdir við Hópsbraut, Vesturhóp, Mánagötu, Ægisgötu, frekari framkvæmdir við Verbraut, Bakkalág og Fiskasund.

Í forgangi þrjú eru framkvæmdir við Víðigerði, Túngötu, Sunnubraut, Hellubraut, Vörðusund, Hópsnes, Kirkjustíg og frekari framkvæmdir við Vesturhóp.

Í forgangi fjögur eru framkvæmdir við Bröttuhlíð, Kríuhlíð, Fálkahlíð, Kríuhlíð, Lóuhlíð, Spóahlíð, Hafnargötu, Fiskasund og Ufsasund.

Eins og áður segir eru framkvæmdirnar hluti af aðgerðaáætlun um viðgerðir á götum, opnum svæðum og öðrum innviðum í Grindavík. Helstu atriði áætlunarinnar eru:

Viðgerðir á innviðum: Viðgerðir á gatnakerfi, lögnum og öðrum samgönguleiðum þar sem eru sýnilegar sprungur, þ.m.t. mótvægisaðgerðir vegna flóðahættu við byggingar vestan við höfnina.

Jarðkönnun: Framhald jarðkönnunar til að meta ástand jarðvegs og tryggja öryggi.

Áhættumat: Gerð áhættumats í samvinnu við ríkislögreglustjóra og Almannavarnir.

Mannheldar girðingar við sprungu sveima og önnur óörugg svæði

Aðgerðirnar eru mikilvægar til að stuðla að öflugu atvinnulífi og öruggu samfélagi í Grindavíkurbæ eftir því sem aðstæður leyfa. Að jafnaði er unnið að margvíslegum umbótum á innviðum í Grindavík. Framkvæmdir miða meðal annars að því að hægt sé að auka aðgengi að bænum.

Í aðgerðaáætluninni kemur fram að hún miðist við núverandi stöðu, þ.e. að eldgos sé ekki í gangi, en verði breytingar þar á muni að sjálfsögðu þurfa að uppfæra áhættumat og þar með einnig framvindu framkvæmda. Þannig eru aðgerðirnar háðar náttúruöflunum og ekki er unnið að framkvæmdum á meðan frekari jarðhræringar eru yfirvofandi líkt og nú. Vegagerðin er verkkaupi/verkeigandi í umboði Grindavíkurnefndar og Grindavíkurbæjar.

Í ráðgjafahóp um framkvæmdirnar sitja eftirfarandi:

Gunnar Einarsson f.h. Grindavíkurnefndar

Sigurður Rúnar Karlsson f.h. Grindavíkurbæjar

Atli Geir Júlíusson f.h. Grindavíkurbæjar

Jón Haukur Steingrímsson frá Eflu

Einar Sindri Ólafsson frá Eflu

Valgarður Guðmundsson f.h. Vegagerðarinnar

Sindri Þrastarson frá Verkfræðistofu Suðurnesja