Framkvæmdir hafnar við endurbætur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Vegna fyrirsjáanlegrar aukningar á farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll á álagstíma að morgni og síðdegis er ljóst að auka verður afgreiðslustæði flugvéla við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Til þess að afgreiða megi allt áætlunarflug á réttum tíma var ákveðið að nota flugvélastæði sem ekki eru tengd flugstöðinni með landgöngubrúm, fyrir farþegaflug á álagstíma. Afgreiðslustæðum farþegaflugs fjölgar því úr 14 í 16 og verður farþegum ekið milli flugstöðvar og flugvéla á umræddum tveimur afgreiðslustæðum.
Þessi tilhögun krefst vissra endurbóta á flugstöðinni svo koma megi farþegum inn og út úr byggingunni með skjótum hætti auk þess sem afmarka þarf biðsvæði fyrir umrædda farþega í brottfararsal á annarri hæð í norðurbyggingu flugstöðvarinnar. Ákveðið hefur verið að biðsvæðið komi þar sem nú er svonefndur Panorama bar IGS og að byggingin verði stækkuð lítillega til austurs á bak við verslunina Elkó þar sem komið verður fyrir stiga og lyftu fyrir farþega á leið út í bifreiðar á flughlaðinu. Fyrir næsta sumar verður einungis þörf á að taka biðsalinn aftan við Elkó í notkun og ef áætlanir flugfélaga fyrir sumarið 2013 ganga eftir þarf að færa Panorama barinn og taka seinni biðsalinn í notkun. Jafnframt er gert ráð fyrir endurbótum við komusal á fyrstu hæð fyrir komufarþega frá Norður-Ameríku sem ekið er frá suðurbyggingu flugstöðvarinnar.
Framkvæmdin felst m.a. í stækkun annarrar hæðar norðurbyggingar flugstöðvarinnar með svölum til austurs þar sem komið verður fyrir biðsvæði farþega ásamt breytingum á Panoramabar í annað biðsvæði. Reist verður upphitað stigahús og komið fyrir lyftu ásamt yfirbyggðu göngusvæði á flughlaði frá stigahúsi að biðsvæði fólksflutningabifreiðar sem flytur farþega að flugvélum. Einnig verða gerðar breytingar á vörumóttöku til þess að auðvelda aðgengi komufarþega inn í töskusal á fyrstu hæð. Einnig felast í verkinu breytingar á vörumóttöku við flughlaðið og færsla girðingar við flughlað ásamt hliði og brunahana.
Opinbert útboð fór fram vegna verksins og hafa samningar verið gerðir við verktakafyrirtækið Atafl sem átti lægsta tilboð í verkið. Gert er ráð fyrir að heildarkostaður við verkið nemi 350 milljónum króna og að framkvæmdum verði lokið fyrir 1. ágúst næstkomandi.
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri FLE (t.h.) og Kári Arngrímsson, forstjóri Atafls handsala samninginn. ?