Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 21. febrúar 2001 kl. 11:58

Framkvæmdir hafnar

Senn hefjast byggingaframkvæmdir við ný íbúðahverfi í Lágseylu og Grænáshverfi. Helguvíkursvæðið hefur einnig verið skipulagt en verið er að vinna að deiliskipulagi fyrir Borgarhverfi sem staðsett er við Reykjanesbraut í grennd við flugstöðina. Þessi svæði eru ætluð fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og þjónustu. Þess má geta að gjaldskrá gatnagerðagjalda er helmingi lægri í Reykjanesbæ en í Reykjavík og má því búast við að fyrirtæki sjái sér hag í að flytja starfsemi sína suðureftir. Uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis Samkaupssvæðinu er einnig á dagskrá á næstunni sem og endurbygging Hafnargötunnar, sem bæjarbúar bíða eflaust eftir með ofvæni.

Mynd af Lágseyluhverfi eins og það mun líta út í framtíðinni

Lágseyla - Fallegar sjávarlóðir
Tuttugu og sjö lóðum fyrir rað-, par- og einbýlishús verður úthlutað í Lágseylu innan skamms. Vinnu við gatnagerð lýkur í febrúar og verða lóðir byggingarhæfar í mars. Höfundur deiliskipulags í Lágseylu er Verkfræðistofa Njarðvíkur.
„Á næstu þremur árum verður farið út í stækkun leikskólans í Innri Njarðvík og bygging nýs grunnskóla er einnig fyrirhuguð í hverfinu á næstu árum þannig að svæðið ætti að henta barnafólki mjög vel“, segir Jóhann Bergmann bæjarverkfræðingur Reykjanesbæjar.

Grænás - Stórfenglegt útsýni
Í Grænáshverfi er gert ráð fyrir 169 íbúðahúsalóðum. Deiliskipulag er frágengið og hefur gatnahönnun verið boðin út. Framkvæmdar við fyrsta áfanga, sem hefur að geyma 31 lóð næst Fitjum, hefjast í maí. Lóðirnar verða byggingarhæfar í ágúst. Höfundur deiliskipulags er Hornsteinar arkitektar ehf.
„Útsýnið í Grænásnum er mjög fallegt og fjölbreyttir útivistarmöguleikar eru í nánasta umhverfi. Tjarnirnar á Fitjum, sem eru þekktar fyrir fjölskrúðugt fuglalíf, eru t.d. í 10 mínútna göngufjarlægð en þar er verið að hanna útivistarsvæði. Framkvæmdir við útivistarsvæðið hefjast á næsta ári“, segir Helga Sigrún Harðardóttir atvinnuráðgjafi Reykjanesbæjar.

Borgarhverfi - Fyrirtæki í flugþjónustu
Borgarhverfi er staðsett á besta stað við Reykjanesbraut í grennd við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar er gert ráð fyrir fyrirtækjum sem tengjast flug- og ferðaþjónustu. Lóðirnar í hverfinu verða allt að 15.000 fermetrar að stærð.
„Borgarhverfi er tilvalið fyrir fyrirtæki sem hafa hag af því að vera staðsett nálægt flugvellinum, s.s. flugfélög, bílaleigur og hraðflutningafyrirtæki. Hverfið stendur við Reykjanesbrautina en allir ferðalangar sem leið eiga um flugvöllinn aka þar framhjá. Unnið er að deiliskipulagi fyrir þetta hverfi og óskað er eftir hugmyndum um nýtingu svæðisins“, segir Ólafur Kjartansson framkvæmdastjóri MOA.

Helguvík - Fullkomin uppskipunaraðstaða
Á iðnaðarsvæðinu í Helguvík hafa þegar verið skipulagðar um 80 lóðir en þær verða allt að 25.000 fermetrar að stærð. Þar munu fyrirtæki sem stunda hafnsækinn iðnað koma sér fyrir í framtíðinni. Að sögn Jóhanns býður höfnin upp á margs konar möguleika en þar er ein fullkomnasta uppskipunaraðstaða fyrir olíu á landinu. „Hér er um að ræða svæði sem innflutnings- eða útflutningsfyrirtæki í örum vexti ættu að líta til en á svæðinu er einnig nægur aðgangur að ferskvatni og raforku.“ Verkfræðistofa Suðurnesja er höfundur deiliskipulags í Helguvík.

Nýr þjónustukjarni í móanum
Svæðið norðan við Samkaup er nú á teikniborðinu. Í undirbúningi er gerð skipulagsskilmála og í framhaldi verða lóðirnar auglýstar. Ólafur Kjartansson sagði að það kæmi vel til greina að bjóða svæðið út í heild sinni, líkt og gert var í Smáranum í Kópavogi. „Svæðið er 45.000 fermetrar að stærð en við sjáum fyrir okkur að þarna rísi líflegt verslunar- og þjónustusvæði, t.d. lítil Kringla, sérvöruverslanir, ráðstefnuhótel o.þ.h. en gert er ráð fyrir íbúðum á efri hæðum húsanna. Draumurinn er að fá stór fyrirtæki til að koma þangað“, segir Ólafur.

Endurbygging Hafnargötu
Hafnargatan hefur löngum verið þyrnir í augum bæjarbúa og annarra en það er fyrir löngu orðið tímabært að gefa götunni andlitslyftingu. Heiðar staðfesti að það væri næst á dagskrá og stefnt væri á að ljúka hönnunarvinnu á þessu ári svo að framkvæmdir við endurbyggingu gætu hafist á næsta ári. „Við höfum hugsað okkur að hafa svokallað síugötukerfi, samanber Laugavegurinn í Reykjavík. Meiningin er að byggja síðan upp umferðargötu fyrir neðan Hafnargötu næst sjónum, Ægisgötu en þar á mesta umferðin að fara“, segir Heiðar en það verður spennandi að fylgjast með hverju fram vindur í skipulagsmálum í Reykjanesbæ því ekki virðist skorta hugmyndir og framkvæmdavilja.

Mynd af Borgarhverfi en eins og sjá má býður staðsetningin upp á ýmsa möguleika.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024