Framkvæmdir á fullum krafti við Suðurstrandarveg
Allt bendir til þess að nýr malbikaður Suðurstrandarvegur verði tilbúinn haustið 2011 eins og stefnt var að en þessi nýi vegur verður sannkölluð bylting í samgöngumálum á þessu svæði, ekki síst fyrir Grindvíkinga og Þorlákshafnarbúa.
Aðeins á eftir að bjóða út 15 km kafla frá Krýsuvíkurvegi að Ísólfsskóla og að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, eru góðar líkur á að það verði gert á næstu vikum, eða um leið og ákveðið verður með næstu framkvæmdir Vegagerðarinnar, enda væri nokkuð undarlegt að skilja svo stuttan kafla eftir. Ekkert er að vanbúnaði að bjóða verkið út því útboðsgögn eru svo til klár, að sögn upplýsingafulltrúans.
Í haust hófust framkvæmdir við 33 km kafla frá Þorlákshöfn að Krýsuvíkurvegi og ganga þær vel. Ef allt gengur upp með síðasta kafla vegarins og svo lokatengingu við Grindavík ætti nýr og glæsilegur Suðurstrandarvegur að verða tilbúinn haustið 2011.
Verktaki Suðurstrandarvegar, þ.e. frá Krýsuvík að Þorlákshafnarvegi, er KNH efh.á Ísafirði. Kostnaðurinn við þennan kafla er um 700 milljónir króna.
Í verkefni sem grindvískir fjarnemendur unnu í haust í viðskiptafræði við HA um áhrif nýs Suðurstrandarvegar kom fram að lagning vegarins mun gjörbylta atvinnu- og mannlífi á Suðurlandi og Suðurnesjum, sérstaklega í Grindvík og Þorlákshöfn. Ferðaþjónusta mun eflast til mikilla muna því náttúruperlur leynast víða á svæðinu og betri samgöngur munu opna ýmsa nýja möguleika fyrir ferðamenn. Suðurstrandarvegur mun efla atvinnulífið og hafa í för með sér aukið flæði vinnuafls á milli þessara svæða og styrkja byggðirnar enn frekar.
---
VFmynd/elg. Suðurstrandavegur er eins og þvottabretti.