Framkvæmdir á fullu við sögufrægt hús
Nú er unnið að fullum krafti við að gera upp og breyta Hábæ í Vogum og virðist vel vandað til verka. Framkvæmdir við húsið hafa staðið yfir undanfarna mánuði og eru framkvæmdir við lóð hafnar. Þarna voru tvær íbúðir en verða þrjár eftir breytinguna.
Hábær er sögufrægt hús. Syðri hluti Hábæjar var byggður 1921 á grunni eldra húss. Þarna var fyrsta símstöðin í Vogum og þangað kom fyrsta útvarpið í hreppinn 1926. Sagt er að húsið hafi fyllst á sunnudögum þegar fólk af öðrum bæjum dreif að spariklætt til að hlusta á messu. Í Hábæ var sett upp fyrsta verslunin í Vogum árið 1929 og var hún starfrækt í þessu húsi þar til 1968. Hábær var þannig eins konar miðbær Voga hálfa síðustu öld.
Nánari upplýsingar um Hábæ og önnur sögufræg hús í sveitarfélaginu má finna í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, útgefin í Vogum 1987.
---
Af heimasíðu Sveitarfélagsins Voga: www.vogar.is