Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Framkvæmdir á Festi hefjast í næstu viku
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri og Ágúst Gíslason í húsnæðinu sem hýsti rekstur Festi.
Föstudagur 15. ágúst 2014 kl. 14:20

Framkvæmdir á Festi hefjast í næstu viku

Grindvíkingar hafa beðið óþreyjufullir eftir aðgerðum.

„Framkvæmdir hefjast í næstu viku. Ég lagði inn teikningar í vetur og þá fékk ég leyfi til þess, þegar ég væri búinn að uppfylla brunahönnunina og nú er verið að teikna hana. Öll gögnin eru komin til bæjaryfirvalda,“ segir verktakinn Ágúst Gíslason, um húsnæðið við Víkurbraut 58 í Grindavík, sem áður hýsti skemmtistaðinn Festi. Engin starfsemi hefur verið í húsinu undanfarin níu ár og Ágúst keypti það fyrir tveimur árum til að endurreisa það sem hótel með 36 herbergjum og nemur kostnaðaráætlun 308 milljónum króna.

Allt fer á fullt

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ágúst segir að byrjað verði á framkvæmdum utan húss þótt í raun verði hafist handa við margt í einu. „Gólfin verða söguð upp og við göngum frá húsinu að utan algjörlega, skiptum um glugga, gler og filtera, gerum við múr og þök. Þessu þarf að ljúka fyrir veturinn. Á sama tíma erum við að saga upp fyrir skólpinu og koma því út.“

Strandaði á endanlegri fjármögnun

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, segist skilja vel að bæjarbúar séu langþreyttir. „Þetta hefur strandað á endanlegri fjármögnun en nú er komið lánsvilyrði og því hægt að hefja framkvæmdir. Varðandi skipulags- og byggingarþáttinn þá tel ég að allt sé komið til okkar sem verktakinn á að skila. Í gegnum tíðina var nokkrum sinnum reynt að selja húsnæðið og í kringum 2006/7 voru samþykktar breytingar sem voru þess eðlis að rífa ætti húsið og reisa hótelturn. En ekkert varð úr því ævintýri,“ segir Róbert.

Ekki ástæða til að beita reglugerðum

Samkvæmt mannvirkjalögum fellur byggingaleyfi (eða framkvæmdaleyfi) úr gildi ef framkvæmdir hefjast ekki innan eins árs frá því að það er gefið út. Framkvæmd telst hafin við fyrstu áfangaúttekt og þá þarf að sækja um byggingaleyfi aftur. Ármann Halldórsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs hjá Grindavíkurbæ, segir að þrátt fyrir að tvö ár séu síðan verktaki keypti húsnæðið hafi ekki staðið til að beita reglugerðum. „Eigandinn er búinn að eyða stórfé í hönnun og undirbúning. Það er búið að prenta út teikningar á vindheldan striga og hengja upp á húsið. Þar hefur fólk getað virt fyrir sér teikningar. Þar kemur fram einnig fram hver sér um framkvæmdir og fólk hefur getað haft samband við hann beint,“ segir Ármann.

Þarf að finna gott fólk í reksturinn

Opna á gistihúsið í vor og Ágúst segir enga hefð hafa verið fyrir hótelum eða gistihúsum í Grindavík. „Þar var eitt gistihús til skamms tíma með um átta herbergjum. Það verður að horfa fram í tímann. Það er heilmikið flæði í gegnum bæinn þar í gegn og Bláa lónið hefur sitt að segja og er stutt frá. Þetta lítur vel út og ég er bjartsýnn. Auðvitað þarf maður að finna gott fólk til rekstrarins eða markaðsetningarinnar öllu heldur. Hún skiptir svo miklu máli. Staðsetningin er góð og heilmiklar framkvæmdir er fyrirhugaðar þarna. Ef tómataverið fer í gang þá er munu iðnaðarmenn koma erlendis frá og einhvers staðar þurfa þeir að gista. Það er því meira en túrisminn sem kallar á húsnæði í bænum,“ segir Ágúst bjartsýnn.

 

VF/Olga Björt