Framkvæmdanefnd skoðaði aðstæður í Grindavík
Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ kynnti sér aðstæður í Grindavík í vikunni. Nefndarfólk skoðaði ummerki eftir jarðhræringar í bænum sjálfum með fulltrúum Almannavarna og hitti starfsfólk sem vinnur m.a. að því að tryggja öryggi á svæðinu og við uppbyggingu varnargarða við bæinn. Greint er frá þessu á vef stjórnarráðsins.
Undirbúningur að starfi nefndarinnar er hafinn í góðri samvinnu við bæjaryfirvöld í Grindavík og stjórnvöld sem unnið hafa að viðbragði vegna jarðhræringanna. Nefndin tekur þó ekki formlega til starfa fyrr en 1. júní nk. samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti nýlega.
Framkvæmdanefndin fundaði einnig í gær með bæjarstjórn Grindavíkur, stýrihópi Stjórnarráðsins um málefni Grindavíkur, Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum, Veðurstofu Íslands og fulltrúum ýmissa annarra stjórnvalda. Árni Þór Sigurðsson, Guðný Sverrisdóttir og Gunnar Einarsson munu sitja í framkvæmdanefndinni og verður Árni Þór formaður.
Þjónustuteymi sett á fót
Stjórnvöld hafa samþykkt að setja á fót nýtt þjónustuteymi til að tryggja áframhaldandi samþættan og markvissan stuðning við íbúa Grindavíkur. Í teyminu verður sérhæft starfsfólk sem mun veita ráðgjöf um atvinnuleit og virkni, húsnæði, þjónustu, skóla, tómstundir og íþróttir. Þjónustuteymið mun heyra undir framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ eftir að nefndin tekur til starfa.
Á upplýsingasíðu fyrir Grindvíkinga á Ísland.is eru mikilvægar upplýsingar um húsnæðismál, líðan, bjargráð og ýmis önnur stuðningsúrræði. Starfsemi þjónustuteymisins verður kynnt nánar síðar á upplýsingasíðunni.