Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdahugur í Garðmönnum
Föstudagur 4. mars 2005 kl. 20:28

Framkvæmdahugur í Garðmönnum

Á bæjarstjórnarfundi Garðs nú í vikunni var þriggja ára áætlun  bæjarins samþykkt samhljóða. Áætlunin er fyrir árin 2006-2008. Í henni er gert ráð fyrir áframhaldandi átaki í gatnagerð og gangstéttaframkvæmdum. Áætlað er að verja þurfi 20 milljónum króna ár hver til þessara framkvæmda.

Framkvæmdir við stækkun leikskólans munu hefjast í ár. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði greiddur í ár og á næsta ári.

Stækkun Byggðasafnsins verður lokið í ár og er gert ráð fyrir opnun safnsins um miðjan júní.

Gert er ráð fyrir að stækkun Gerðaskóla hefjist árið 2007 og verði lokið árið 2008. Við þá stækkun mun t.d. öll aðstaða fyrir tölvur og bókasafn batna til mikilla muna.
Gert er ráð fyrir að stækkun Íþróttamiðstöðvarinnar hefjist árið 2007 og haldi áfram árið 2008.

Hér hefur verið minnst á helstu framkvæmdaverkefni sveitarfélagsins á næstu árum. Einnig er í athugun að húsnæði bæjarskrifstofunnar flytjist í nýtt verslunar-og þjónustuhús,sem fyrirhugað er að byggja á þeim stað sem Sparisjóðurinn er núna. Ákvörðun um það mun liggja fyrir á næstu dögum.

Þriggja ára áætlunin gerir svo sannarlega ráð fyrir því að sveitarfélagið Garður verði áfram í sókn. Í lokaorðum greinargerða bæjarstjóra segir „Haldi atvinnulífið áfram að blómstra á Garðurinn að geta eflst enn frekar í framtíðinni,sem sjálfstætt sveitarfélag“.


Eftirfarandi er greinargerð Sigurðar Jónssonar bæjarstjóra með áætluninni í heild sinni.

Áætlunin er stefnumarkandi hvað varðar álagningu gjalda svo og á hvaða framkvæmdir er stefnt að á næstu árum. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir óbreyttum rekstri nema hvað gera þarf ráð fyrir auknum rekstrarkostnaði vegna Byggðasafnsins og vegna stækkunar leikskólans.
Þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er  í stórum dráttum stefnumarkandi hvað varðar rekstur og framkvæmdir næstu ára.Rétt er að benda á að áætlunin er endurskoðuð árlega samhliða gerð fjárhagsáætlunar fyrir hvert ár.
Íbúum Garðs heldur áfram að fjölga og á síðasta ári varð fjölgun um 3,04% sem er mun hærra en landsmeðaltal og hlutfallslega mesta fjölgun hér á Suðurnesjum. Íbúar voru 1.des. s.l. 1322.
Í þessari áætlun er gengið út frá því að fjölgun næstu ára verði 2% á ári. Einnig er gert ráð fyrir því að áfram verði mikið byggt af húsnæði og af þeirri ástæðu er gert ráð fyrir að tekjur vegna fasteignagjalda hækki um 5 % milli ára.
Mjög erfitt er reyndar að spá í og áætla tekjur sveitarfélagsins næstu árin. Mikil óvissa ríkir um framlög og tekjustofna af ríkisins hálfu varðandi sveitarfélögin.Það liggur enn ekkert fyrir um það hvort samkomulag næst milli ríkis og sveitarfélaga um tekju-og verkaskiptingu. Ef tekjur til sveitarfélaga verða auknar breytast að sjálfsögðu allar forsendur þessarar áætlunar.

Framkvæmdir.

Á síðustu árum hefur verið gert mikið átak í lagningu gangstétta svo og lagningu slitlags á götur bæjarins.Gert var ráð fyrir að  þessu átaki lyki árið 2006. Þróun mála hefur verið þannig vegna fjölgunar íbúðarhúsnæðis að útbúa hefur þurft margar nýjar götur, sem hefur kostað mikla fjármuni. Af þessari ástæðu verður að halda áfram af fullum krafti næstu árin í gatna-og gangstéttaframkvæmdum Í áætluninni er gert ráð fyrir 20 milljónum árlega árin 2006-2008.
Gert er ráð fyrir að ráðist verði í stækkun leikskólans í ár og er framlag áætlað til þess að upphæð 10 milljónir. Gert er ráð fyrir að ljúka greiðslum á árinu 2006 og eru þar áætlaðar 10 milljónir.
Áætlunin gerir ráð fyrir að stækkun Gerðaskóla hefjist árið 2007 og verði lokið árið 2008. Eftir að þeirri framkvæmd lýkur mun öll aðstaða varðandi tölvur og bókasafn batna mikið.Haldi íbúum áfram að fjölga getum við staðið frammi fyrir því að fjölga þurfi bekkjardeildum Taka verður á því ef sú staða kemur upp.
Í þessari áætlun er ekki tekið á því hvort flutt verður í nýtt skrifstofuhúsnæði. Ákvörðun af eða á verður væntanlega tekin á næstu vikum. Verði ákvörðun tekin um flutning og að um leigu verði að ræða mun það hafa áhrif á reksturskostnað en á móti kemur að núverandi skrifstofuhúsnæði mun þá væntanlega verða selt.
Gert er ráð fyrir að stækkun Íþróttahús hefjist árið 2007 og haldi áfram árið 2008.
Lagfæringar og endurbætur á Vitavarðarhúsinu er á dagskrá í ár og að meira átak verði gert á árinu 2006.
Framkvæmdum við Byggðasafnið mun ljúka í sumar en gert er ráð fyrir greiðslum vegna þess á árinu 2006. Kostnaður við stækkun safnsins verður rúmar 60 milljónir auk búnaðar.
Á móti kostnaði við þessar framkvæmdir er gert ráð fyrir framlögum frá ríkinu vegna Byggðasafnsins, en vinna þarf að því að reyna að fá
hækkun á framlaginu. Á næstu dögum mun Safnaráð afgreiða umsókn okkar um rekstrarstyrk.
Áætlunin gerir ráð fyrir að á næsta ári hefjist framkvæmdir við fráveitumálin. Eins og áður hefur komið fram teljum við að sýnt hafi verið framá að hægt er að leysa málin á mun hagkvæmari og ódýrari hátt en stífustu reglugerðir krefjast. Málið hefur verið kynnt Umhverfisráðuneytinu og unnið er nú að því að senda rökstudda umsókn til ráðuneytisins vegna framkvæmda í fráveitumálum.

Staða mála.

Samkvæmt þessari áætlun verður hægt að draga verulega úr lántökum árin 2007 og 2008.Eins er rétt að vekja aftur athygli á því að verði auknu fjármagni veitt til sveitarfélaga frá ríkinu mun rekstrargrundvöllur lagast mun meira en áætlunin gerir ráð fyrir.
Á síðustu mánuðum var unnið mikið í því að gera breytingar á lánapakka okkur. Það tókst að ná fram verulegri hagræðingu í þeim málum og ná þar með niður kostnaði.
Eins og áður sagði hefur verið mikill uppgangur hér í Garði á síðustu árum. Mikið hefur verið byggt af  íbúðarhúsnæði, þannig hefur íbúðum fjölgað um 69 frá árinu 2000. Sem betur fer virðist þessi þróun halda áfram.Þetta er kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið en mun skila sér þegar til lengri tíma er litið. Haldi atvinnulífið einnig áfram að blómstra á Garðurinn að geta eflst enn frekar í framtíðinni, sem sjálfstætt sveitarfélag.

Garði 2.mars 2005, Sigurður Jónsson, bæjarstjóri.

VF-myndir: Ljósmyndasafn Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024