Fréttir

  • Framkvæmdagleði Suðurnesjamanna
    Framkvæmdir við Bjarkadal í Innri-Njarðvík. Þar er verið að klára 15 íbúða fjölbýlishús.
  • Framkvæmdagleði Suðurnesjamanna
Föstudagur 27. maí 2016 kl. 10:07

Framkvæmdagleði Suðurnesjamanna

Söluaðilar finna fyrir gríðarlegum vexti í framkvæmdum á svæðinu

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá Suðurnesjamönnum að víða er verið að framkvæma og byggja upp um þessar mundir. Stórar framkvæmdir eru í fullum gangi á Ásbrú, í Flugstöðinni, í Helguvík, við Bláa Lónið og víðar. Einstaklingar eru svo líka duglegir við að lappa upp á eignir sínar enda er mikil hreyfing á fasteignamarkaði eins og greint hefur verið frá undanfarið í Víkurfréttum. Bílaleigur og gistiheimili spretta upp víða á svæðinu og eru iðnaðarmenn önnum kafnir við að sinna öllum þessum verkefnum hjá smærri fyrirtækjum sem og einstaklingum. Víkurfréttir tóku púlsinn á nokkrum aðilum sem koma að þessum framkvæmdum öllum.

Finnur fyrir gífurlegum framkvæmdum

Einar Lárus Ragnarsson, verslunarstjóri Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ, segist finna gífurlega mikið fyrir þessum framkvæmdum. „Ég hef orðið var við það að mikið af fólki er að flytjast hingað sem vinnur ekkert endilega á svæðinu,“ segir Einar sem er duglegur að spjalla við viðskiptavinina í búðinni. „Það er mikið um það að fólk er að flytjast hingað úr smærri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og stækka þá við sig. Fólk er síður að setja það fyrir sig að keyra brautina, sýnist mér.“ Einstaklingar eru að sögn Einars afkastamiklir í alls kyns framkvæmdum um öll Suðurnesin. Auk þeirra framkvæmda sem taldar hafi verið hér að ofan þá er einnig mikið um að vera í Grindavík á vegum sjávarútvegsfyrirtækjanna þar sem mikið af húsnæði hefur verið tekið í gegn fyrir þeirra starfsfólk.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einar segir að hann hafi þurft að bæta við starfsfólki vegna aukinna umsvifa en verslunin fór í gegnum miklar breytingar eftir að Blómaval fór út á sínum tíma. Nú snýst allt um framkvæmdahlutann en nóg er um að vera á þeim vígstöðum um þessar mundir.

Einstaklingar að framkvæma meira

Íris Sigtryggsdóttir, verslunarstjóri Byko, segist finna fyrir töluverðri aukningu í framkvæmdum á svæðinu. Því fylgi auðvitað aukin eftirspurn eftir vörum í verslun Byko í Reykjanesbæ. „Það er talsverð breyting frá fyrri árum,“ segir Íris. Hún segir ennfremur að í fyrra og í ár hafi verið mikill stígandi í þessu. Nú er svo komið að einstaklingar eru að taka við sér og framkvæma meira. „Það má segja að það hafi verið lægð í einstaklingsframkvæmdum. Við erum að sjá töluverða aukningu í því að fólk sé að taka húsin sín í gegn og ráðast í stærri framkvæmdir og viðhalda sínum eignum.“

Viðskiptavinum hjá versluninni hefur fjölgað undanfarið sem og starfsfólki. „Við erum með flottan meðbyr og erum ánægð með það. Við erum eftir fremsta megni að verða við aukinni eftirspurn. Við erum með reynslumikið fólk sem er með mikla þekkingu,“ bætir verslunarstjórinn við. „Það eru gríðarlegar framkvæmdir á Suðurnesjum. Í Helguvík, hótelið við Bláa Lónið og í allri flugstöðinni. Þetta er af svo mörgum toga. Ásbrú virðist vera komin á mikið flug. Við erum að sjá verulegar framkvæmdir þar sem við kannski áttum ekki von á. Það er líklega stærra en fólk gerir sér grein fyrir.“

Mikil aukning milli ára

Bogi Sigurbjörn Kristjánsson, verslunarstjóri í Múrbúðinni, tekur í sama streng og Íris. „Það er margföld aukning hjá okkur á milli ára. Við erum að tvöfalda aprílmánuð frá því í fyrra og maí lofar ansi góðu eins og staðan ef núna,“ segir Bogi. Hann segir að áður fyrr hafi einstaklingar sótt mikið í verslunina en nú hefur það færst gríðarlega í aukana að fyrirtæki versli við Múrbúðina. „Maður tekur sérstaklega eftir því eftir að hlutirnir fóru af stað í Helguvík og auknar framkvæmdir í Flugstöðinni,“ enda er verslunin vel staðsett hvað varðar þessa vinnustaði. „Ég upplifi þetta þannig að fólk virðist hafa meira á milli handanna. Fólk virðist aðeins spá minna í því hvað hlutirnir kosta miðað við kannski fyrir tveimur, þremur árum. Fólk virðist vera í þeim hugleiðingum að rífa út úr húsunum og græja hlutina upp á nýtt,“ segir Bogi sem sjálfur er í talsverðum framkvæmdum „Mér finnst allir iðnaðarmenn vera meira og minna uppbókaðir, það er sama hvernig á það er litið. Sjálfur er ég að taka húsið mitt í gegn. Mér gengur djöfullega að fá iðnaðarmenn til að aðstoða mig,“ segir hann léttur í bragði.