Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdagleði á jarðskjálftamælum
Þriðjudagur 22. júlí 2003 kl. 11:31

Framkvæmdagleði á jarðskjálftamælum

Framkvæmdagleðin í Reykjanesbæ er farin að koma fram á jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands. Þannig hafa smáskjálftar verið að koma fram á mælum sem benda til jarðskjálfta norður af Helguvík. Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni sagði við Víkurfréttir að það væri erfitt fyrir sjálfvirkan búnað veðurstofunnar að greina á milli sprenginga og smáskjálfta.Eftir ábendingu um skjálfta í nágrenni Helguvíkur, staðfesti Ragnar að þeir væru að völdum sprenginga. „Það er afskaplega erfitt fyrir
okkur að greina sundur sprengingar og litla jarðskjálfta, sérstaklega
gengur sjálfvirka búnaðinum hjá okkur illa að greina þetta sundur. Það er
mjög bagalegt af því við notum litla skjálfta mikið til að átta okkur á spennuástandinu niðri í skorpunni. Ef við höfum sæmilega dýpisákvörðun getur gengið að greina þetta sundur. Best er þó að vita hvar verið sé að
sprengja og hvenær. Það sparar okkur mikla vinnu“, sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur að endingu.
Það verður núna næsta verk jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands að hafa samband við Íslenska aðalverktaka, sem standa að sprengingunum, til þess að fá að vita hvenær þeir eru að sprengja á svæðinu. Nóg gengur víst á í jarðskorpunni á Reykjanesi og á Reykjaneshrygg, að „falskir“ skjálftar í Helguvík séu ekki að skekkja myndina.

Myndin: Jarðskjálftakort sem sýnir uppsafnaða skjálfta. Meðal annars má sjá skjálfta í Helguvík. Mynd af vef Veðurstofunnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024