Framhaldssaga fyrir börn í Víkurfréttum í tilefni dags læsis
Dagur læsis er í dag, 8. sept. en markmið hans er að vekja athygli á mikilvægi læsis og hvetja til aukins lestrar. Í tilefni af þessum degi munu Víkurfréttir birta framhaldssögu í átta köflum fyrir börn, í næstu átta tölublöðum.
Sagan fjallar um Jónsa fréttaritara og ævintýri hans og er birt í samvinnu við Alþjóðasamband fréttablaða, - WAN, World Assocaiation of newspapers and news publishers, sem gengst fyrir því að blöð geti endurgjaldslaust birt árlega sögu fyrir börn í tilefni af degi læsis. Sagan hefur verið þýdd af starfsmönnum Háskólans á Akureyri en Skólaþróunarsvið HA hefur frá stofnun þess 1999 unnið að málefnum læsis.
Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis.Eins og kunnugt er þá dalar lestrarfærni og iðkun lestrar bæði drengja og stúlkna ár frá ári. Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri hefur um árabil starfað að læsismálum innan skólakerfisins en stendur nú fyrir því að vekja athygli á lestri og læsi meðal almennings í tengslum við Alþjóðadag læsis 8. september á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Þess má að lokum geta að Víkurfréttir tóku þátt í lestrarátaki á Suðurnesjum í samvinnu við Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar fyrir nokkrum árum. Átakið gekk út á það að fulltrúar fyrirtækja og stofnana lásu fyrir starfsmenn, mættu á vinnustaði og lásu upp úr bók í stutta stund. Átakið heppnaðist mjög vel.