Reykjanesbær 3-6 sept
Reykjanesbær 3-6 sept

Fréttir

Fram Foods kaupir Sjöstjörnuhúsið
Föstudagur 21. janúar 2005 kl. 17:14

Fram Foods kaupir Sjöstjörnuhúsið

Stórfyrirtækið Fram Foods hf. hefur keypt hús Sjöstjörnunnar við Hafnarbakka 11 í Njarðvík, af Reykjanesbæ. Kaupverðið eru 34 milljónir króna, staðgreitt, og var gengið frá kaupunum í morgun.

Halldór Þórarinsson, stjórnarformaður Fram Foods, sagði í samtali við Víkurfréttir að stefnan hjá þeim væri að endurnýja tæki og vélar í húsinu og nota sem kæli- og frystigeymslu fyrir afurðir sínar.

„Við erum sífellt að auka umsvif okkar hér á landi og þessi kaup eru hluti af því ferli,“  sagði Halldór. „Við höfum ekkert ákveðið í sambandi við að hefja vinnslu í húsunum en aðstaðan býður upp á möguleika á því.“

Fram Foods eru með starfsemi víða um Evrópu, m.a. verksmiðjur í Frakklandi og Svíþjóð og söluskrifstofur í Finnlandi og Þýskalandi. Þá á fyrirtækið hlut í verksmiðju í Chile sem sérhæfir sig í vinnslu á krabba og reyktum laxi fyrir heimsmarkað.

Höfuðstöðvarnar eru þó að Brekkustíg 22 í Reykjanesbæ auk þess sem þar er starfrækt verksmiðja þar sem unnin eru loðnu- og grásleppuhrogn, loðna og Bolfiskflök. Afurðirnar eru unnar í neytendapakkningar eða fyrir verksmiðjur fyrirtækisins erlendis.

Fram kemur á vef fyrirtækisins að velta þess sé um 4 milljarðar á ársgrundvelli og starfsmenn eru um 400 talsins í sjö löndum. Þar af eru rúmlega 30 ársstörf í Reykjanesbæ.

„Við erum með þessu að efla okkar starfsemi og það er mjög bjart framundan hjá okkur,“ segir Halldór að lokum.

Reykjanesbæ hefur einnig borist kauptilboð í húsnæði Íshúss Njarðvíkur frá Hauki Guðmundssyni, athafnamanni og fyrrum eiganda Íshússins. Tilboðið er að upphæð  kr. 47.554.444,- staðgreitt og samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar að ganga að tilboðinu að því tilskildu að greiðsla hafi borist fyrir kl. 12.00 miðvikudaginn 26. janúar n.k.
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25