Fræðsla og umræða um orkudrykki í grunnskólum
-Íslendingar drekka mest af orkudrykkjum í Evrópu.
Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima hefur að undanförnu unnið að skemmtilegu verkefni um orkudrykkjaneyslu íslenskra ungmenna í samstarfi við Samtakahópinn en það er þverfaglegur forvarnarhópur Reykjanesbæjar.
„Í nýlegum niðurstöðum frá Rannsóknum og Greiningu kemur fram að íslensk ungmenni eru að drekka mest af orkudrykkjum af öllum í Evrópu. Þess vegna teljum við þetta þarfa umræðu,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins hjá Reykjanesbæ.
Fjölbreyttur hópur af fólki frá Reykjanesbæ var fenginn að bregðast við nokkrum áhugaverðum staðreyndum um neyslu orkudrykkja. Í febrúar voru birt stutt myndbönd í hverri viku en þemað hvers myndbands var ein áhugaverð staðreynd um orkudrykkjaneyslu. Myndböndin voru frumsýnd í heild sinni á fundi Samtaka hópsins þann 11. febrúar.
„Á fundi Samtakahópsins kom upp sú hugmynd að starfsfólk Fjörheima færi með fræðslu í grunnskóla Reykjanesbæjar um skaðsemi orkudrykkja. Síðustu tvær vikurnar hafa starfsmenn Fjörheima farið í alla grunnskóla Reykjanesbæjar með fræðslu og umræðu um orkudrykki. Tekin var ákvörðun um að fara inn í hvern bekk fyrir sig með fræðsluna til þess að fá ungmennin til að taka virkan þátt í umræðum. Alls voru þetta 32 fræðslur eftir að hafa heimsótt alla skólana sjö. Ungmennin sýndu umræðuefninu mikinn áhuga og töldu flestir sig hafa lært eitthvað nýtt um orkudrykkjaneyslu,“ segir Gunnhildur.