Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fræðsla fyrir ungmenni og foreldra um sexting og hrelliklám
,,Ábyrgðin er alltaf hjá þeim sem dreifir myndunum en það er ekki endilega víst að unglingar geri sér grein fyrir afleiðingunum,“ segir Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Sunnudagur 17. apríl 2016 kl. 06:00

Fræðsla fyrir ungmenni og foreldra um sexting og hrelliklám

,,Við höfum áhyggjur af því að foreldrar geri sér ekki grein fyrir því hversu algengt það er meðal ungmenna að skiptast á nektarmyndum, alvarleikinn felst fyrst og fremst í því þegar trúnaður er brotinn með því að áframsenda slíkar myndir,“ segja þær Anna Hulda Einarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, verkefnastjórar hjá FFGÍR, Foreldrafélagi grunnskólanna í Reykjanesbæ. Umræða um nektarmyndir af íslenskum ungmennum og dreifing slíkra mynda hefur verið umfjöllunarefni í fjölmiðlum og víðar undanfarin misseri. Þær segja afleiðingar slíkra mynddreifinga ófyrirsjáanlegar og í öllum tilfellum óheppilegar og alvarlegar. Foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ buðu í vetur upp á fræðslufundi um sexting (að skiptast á nektarmyndum) og hrelliklám. Fundirnir voru ætlaðir foreldrum barna á mið- og unglingastigi. Fræðslan bar heitið Ber það sem eftir er og var í samstarfi við Vodafone.

Anna Sigríður segir ríka þörf fyrir vitundarvakningu og að upplýstir foreldrar séu besta forvörnin. ,,Ábyrgðin er alltaf hjá þeim sem dreifir myndunum en það er ekki endilega víst að unglingar geri sér grein fyrir afleiðingunum,“ segir hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í kjölfar foreldrafræðslunnar tók FFGÍR ákvörðun um að fræðslan væri nauðsynleg fyrir nemendur á mið- og unglingastigi í skólum Reykjanesbæjar. Þá gætu foreldrar og börn rætt málin sín á milli af þekkingu og skilningi. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu og hefur lögreglunni reynst erfitt að bregðast við vandamálinu. Dreifingin er stjórnlaus og netið gleymir engu. Sexting meðal barna og unglinga eykur á vandann. „Rík þörf er fyrir vitundarvakningu og upplýst börn og foreldra og samfélagið í heild sinni. Ef ekkert er aðhafst geta fleiri börn lent í því að vera ber á netinu það sem eftir er,“ segir Anna Hulda.

Anna Hulda og Anna Sigríður segja forvarnir virka best ef þær eru til staðar áður en hættuna beri að garði. Fræðsla fyrir nemendur í 5. til 10. bekk er undir heitinu Þegar myndir segja meira en 1000 orð. Sigríður Sigurjónsdóttur, höfundur verðlaunamyndanna Fáðu já! og Stattu með þér, flytur fyrirlestrana fyrir ungmennin og verður sá fyrsti í næstu viku. Verkefnið var styrkt af Forvarnasjóði Reykjanesbæjar.