Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Frábært tónlistarfólk á Heimatónleikum Ljósanætur
Frá tónleikum í Holtinu í fyrra
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 9. ágúst 2023 kl. 11:33

Frábært tónlistarfólk á Heimatónleikum Ljósanætur

Heimatónleikarnir á Ljósanótt hafa heldur betur fest sig í sessi hjá íbúum Reykjanesbæjar og gestum þeirra og er engu til sparað í ár frekar en fyrri ár. Fyrstu Heimatónleikarnir voru haldnir árið 2015 og eru þeir orðnir að órjúfanlegri hefð á Ljósanæturhelginni. Á Heimatónleikum býður heimilisfólk gestum að njóta fjölbreyttra listamanna, ýmist inni í hlýjum stofum, í garðinum eða á pallinum, allt eftir veðri og vindum. 

Tónleikarnir í ár fara fram föstudagskvöldið 1. september og eru einungis 550 miðar í boði og kostar miðinn 4.500 kr. Miðasalan er á Tix.is og hefst kl. 10:00 á morgun, 10. ágúst og er ljóst að miðarnir munu rjúka út eins og heitar lummur. 

Heimatónleikarnir munu fara fram á þessum stöðum í ár og með þessu tónlistarfólki:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Brunnstígur: Sigga og Grétar í Stjórninni

Mánagata 11: KK - Kristján Kristjánsson

Túngata 16: Lay Low

Melteigur 16: Heiðar í Botnleðju

Skólavegur 12: Mugison

Íshússtígur 14: Heimur.

Þetta tónlistarfólk þarf vart að kynna en við skulum samt gera það.

Sigga og Grétar í Stjórninni 

Láttu þér líða vel… Sigga og Grétar í Stjórninni stíga á heimagert svið. Í vináttu hafa þau sungið fyrir þjóðina í meira en þrjátíu ár. Heimatónleikagestir geta upplifað ævintýraljóma tíunda áratugarins og tekið undir vinsælustu Stjórnarlögin.

KK - Kristján Kristjánsson

Frá því platan Lucky one kom út árið 1991 hefur KK verið einn af farsælustu tónlistarmönnum sem Ísland hefur alið. Lög eins og Vegbúinn, Þjóðvegur 66 og Á æðruleysinu hafa fyrir löngu fest sig í sessi í hjörtum landsmanna. Listamaðurinn hefur gefið út fjölda margar plötur, bæði eigin verkefni, sem og samstarfsverkefni með ýmsum tónlistarmönnum. KK mundar gítarinn og þenur raddböndin gestum Heimatónleikana til lífs og yndisauka.

Lay Low

Lay Low hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi síðan hún kom fyrst fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni Benny Crespo's Gang. Árið 2006 kom út fyrsta sólóplata hennar, Please don't hate me og sama ár vann hún verðlaun sem besta söngkonan á Íslensku tónlistarverðlaununum. Síðan þá liggur eftir hana fjöldinn allur af efni sem hún hefur bæði gefið út sem og aðrir tónlistarmenn. Tónlistarstíl hennar er oft lýst sem blöndu af blús, þjóðlagatónlist og kántrí.

Heiðar úr Botnleðju

Heiðar Örn Kristjánsson er tónlistarmaður úr Hafnarfirði sem kom fram á sjónarsviðið snemma á níunda áratugnum þegar hljómsveitin Botnleðja sigraði músíktilraunir. Botnleðja var starfandi á árunum 1994 - 2005 og gaf út fimm plötur og hitaði m.a. upp fyrir Blur í tónleikaferð um Evrópu árið 1997. Eftir það hefur Heiðar spilað með ýmsum hljómsveitum, t.d. Pollapönk og verið með sólóverkefnið The Víking giant show. Heiðar mun spila Botnleðjulög í bland við lög af sólóferli og sín uppáhaldslög. Það verður ekki tvenna af verra taginu en honum til halds og trausts verður Franz Gunnarsson gítarleikari úr hljómsveitinni Ensími.

Mugison

Mugison hefur víða komið við í tónlist síðustu 20 árin - allt frá raftónlist yfir í froðufellandi þungarokk. Ungur að árum fór hann erlendis, lærði að taka upp og tók upp sína fyrstu plötu heima hjá sér og gaf út árið 2003. Síðan þá hefur hann gefið út fjölda platna, sú vinsælasta líklega Haglél sem kom út árið 2011. Árið 2004 bjó Mugison ásamt föður sínum, til tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Á þessum heimatónleikum mun hann spila með Kristofer Rodriguez Svönusyni, slagverks- og trommuséní úr Kópavoginum. 

Hreimur

Hreimur Örn Heimisson sló fyrst rækilega í gegn í lok síðustu aldar með hljómsveit sinni Land og synir en einnig hefur hann sungið og spilað með böndum á borð við Föroingabandið, Sexappeal, Eins og hinir, Richter og Made in sveitin og þá hefur Hreimur spilað með öllum helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar í gegnum tíðina. Hreimur hefur einnig gefið út sólóefni, keppt í Eurovision með Vinum Sjonna og flutt gríðarlega vinsæl þjóðhátíðarlög og ber þar helst að nefna LÍFIÐ ER YNDISLEGT, það er óhætt að segja að Hreimur er einn af okkar allra bestu!

Sigga og Grétar í Stjórninni

KK

Lay low

Heiðar í Botnleðju

Mugison

Hreimur