Frábær stemmning - segir Ásmundur Friðriksson
-Sex af 11 frambjóðendum í prófkjöri nk. laugardag eru Suðurnesjamenn
„Prófkjörsbaráttan í mínu framboði hefur gengið framar vonum. Þeir sem vinna með mér og þekkja til kosningavinnu hafa ekki áður kynnst jafn góðri stemningu. Það byggir á gleði og ánægju og þeim kostum sem við búum yfir. Við höfum haldið okkur við að kynna mín mál og það sem ég hef staðið fyrir í þinginu og hlusta á fólkið sem til okkar kemur. Þar brennur helst á fólki kjör eldri borgara, samgöngumál, Helguvík og ferðaþjónustan. Allt mál sem ég mun beita mér fyrir og vinna að.
Okkar framkoma og upplag vinnunnar hefur fallið fólkinu vel og það streymir til okkar á kosningaskrifstofuna, sendir mér skilaboð og hringir inn hvatningarorð og heilræði. Ég get ekki beðið um meira og er þakklátur mínu fólki fyrir mikla og góða vinnu og stuðningsfólkinu góðar undirtektir,“ segir Ásmundur Friðriksson sem býður til í 1.-2. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna sem verður laugardaginn 10. sept.