Frábær árangur FS-nema á Íslandsmóti
Iðnnemar frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja gerðu góða hluti á Íslandsmóti iðngreina, sem fór fram í Laugardalshöll um síðstu helgi. Á mótinu kepptu fulltrúar iðn- og starfsgreina en auk þess kynntu iðn- og verkmenntaskólar starfsemi sína.
Fimm keppendur frá FS fór á mótið í ár. Þeir stóðu sig framúrskarandi vel og unnu allir til verðlauna.
Þar má fyrst nefna hársnyrtinemana sem fóru þrír frá FS og unnu þrjú efstu sætin, sem verður að teljast frábær árangur. Heiðrún Pálsdóttir sigraði, Rakel A. Heinesen varð í öðru sæti og Guðrún Þ. Edvarsdóttir í því þriðja. Vilhjálmur Ólafsson keppti í trésmíði og varð í 2. sæti og Guðlaugur Leifsson varð í 3. sæti í rafvirkjun.
Meira var lagt í keppnisgreinarnar nú en áður og viðfangsefnin í flestum tilvikum veigameiri og meira krefjandi. Markmiðið með breyttu fyrirkomulagi er m.a. að auka þátttöku atvinnulífsins í mótinu og efla tengslin milli þess og iðnskólanna.
Mynd/elg: Keppendur FS á Íslandsmóti Iðngreina voru verðlaunaðir sérstaklega af skólanum í morgun. Talið frá v: Ólafur Sigurðsson, fagstjóri rafiðnaðardeildar, Guðleifur Leifsson, Gunnar Valdimarsson, fagstjóri tréiðngreina, Vilhjálmur Ólafsson, Guðrún Þ. Edvardsdóttir, Rakel A. Heinesen, Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari, Svava Jóhannesdóttir, fagstjóri hársnyrtideildar og Heiðrún Pálsdóttir. Á myndina vantar Elínu Ósk Einardóttur sem þjálfaði hársnyrtinemana fyrir keppnina.