Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fóru inn um framkvæmdasvæði í stolnum fatnaði
Þriðjudagur 24. júlí 2012 kl. 16:20

Fóru inn um framkvæmdasvæði í stolnum fatnaði

Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokið rannsókn á máli tveggja manna sem fóru inn á haftasvæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli þann 8. júlí s.l. og um borð í flugvél Icelandair sem þar stóð.

Sunnudaginn 8. júlí, kl. 00:50, var óskað eftir lögregluaðstoð í flugvél Icelandair við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að áhöfn vélarinnar sem var að undirbúa brottför hafði komið að tveimur óviðkomandi mönnum sem höfðu læst sig inni á salerni í vélinni. Lögreglan handtók mennina en þeir voru látnir lausir síðar um daginn að loknum yfirheyrslum.

Rannsókn málsins leiddi í ljós að mennirnir höfðu undirbúið för sína inn á haftasvæðið við flugstöðina í nokkurn tíma áður en þeir létu til skarar skríða. Þeir stálu síðan vinnufatnaði í verslun í Reykjanesbæ til að líkja eftir klæðnaði starfsmanna á flughlaðinu.

Laugardaginn 7. júlí héldu mennirnir gangandi að flugstöðinni með gulan innkaupapoka með þýfinu og er för þeirra staðfest með framburði vitna. Þeir voru síðan í nokkra stund innan um fólk við flugstöðvarbygginguna, meðal annars að kanna aðstæður á flughlaðinu og er það staðfest með upptökum úr öryggismyndavélum.

Byggingarframkvæmdir vegna stækkunar standa yfir við suðausturhorn flugstöðvarinnar en þennan laugardag voru engir starfsmenn við vinnu á byggingarsvæðinu. Mennirnir komust inn á byggingasvæðið sem er utan haftasvæðisins en samt lokað almenningi. Í gegnum vinnusvæðið tókst þeim að komast að öryggisgirðingunni fyrir haftasvæðið og klifra yfir hana við vinnusvæðið. Eftir það gengu þeir um 300 metra vegalengd yfir flughlaðið klæddir líkt og starfsmenn og að flugvélinni. Það er staðfest með upptökum úr öryggismyndavélum.

Flugvélin var opin og stigabíll við hana þegar mennirnir komu þar að. Starfsmenn höfðu verið að vinna við vélina og síðan átti að færa hana milli stæða við flugstöðina. Það var því meðvituð ákvörðun vegna þessara aðstæðna að vélinni var ekki lokað og stiginn fjarlægður.

Við yfirheyrslur reyndu mennirnir í upphafi að afvegaleiða lögregluna og skýrðu rangt frá um ferðir sínar inn á haftasvæðið. Eftir gagnaöflun og vettvangsrannsókn skýrðu þeir hins vegar frá ferðum sínum í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Ekkert kom fram við rannsóknina sem benti til annars en að þeir hefðu farið um borð í flugvélina í þeim tilgangi einum að komast með henni frá landinu. Þeir sýndu aldrei af sér ofbeldishegðun, hvorki gagnvart áhöfn flugvélarinnar, starfsmönnum flugvallarins né lögreglu og ekkert kom fram sem benti til þess að þeir hafi valdið skemmdum eða haft slíkt í hyggju.

Vegna atviksins var flugvélin tekin í öryggisskoðun, önnur vél fengin til flugsins og önnur áhöfn vegna hvíldartímaákvæða. Brottför flugsins seinkaði um fjórar klukkustundir af þessum sökum. Icelandair lagði fram skaðabótakröfu á hendur mönnunum vegna þessa tjóns sem félagið varð fyrir af þeirra völdum.

Tvímenningarnir sem eru væntanlega um tvítugt eru báðir hælisleitendur hér á landi og dvelja á Fit í Reykjanesbæ. Þeir komu báðir til landsins í apríl, annar með Norrænu til Seyðisfjarðar en hinn með flugi í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Frá þeim tíma hafa þeir verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum en við komuna til landsins þóttust þeir vera börn að aldri en aldursgreining hjá lækni bendir til annars. Þeir voru síðan handteknir tvisvar í júní við tilraunir til að komast um borð í millilandaskip í Reykjavíkurhöfn, þá voru þeir teknir um borð í flugvélinni á Keflavíkurflugvelli og einu sinni eftir það við að reyna að komast um borð í skip í Reykjavík. Þá er annar mannanna grunaður um aðild að tveimur þjófnuðum frá því hann kom til landsins.

Rannsókn málsins er lokið hjá lögreglunni á Suðurnesjum og hefur það verið afhent lögfræðideild embættisins. Brot mannanna eru talin varða við almenn hegningarlög og lög um loftferðir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024