Forstjóri HS gerir athugasemdir við fréttaflutning
Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, gerir athugasemd við frétt mbl.is um fjárhagsstöðu fyrirtækisins en frétt þessa efnis birtist einnig hér á vf.is þar sem vitnað var í frétt mbl.is. Júlíus segir að lesa megi úr fréttinni mun alvarlegri stöðu HS en efni standi til en hann hefur sent frá sér athugasemdir vegna þess.
Í fréttinni segir að forsvarsmenn HS hafi fundað þá um morguninn með fulltrúum í iðnaðarnefnd þar sem staða fyrirtækisins var kynnt. Júlíus segir í athugasemdum sínum að iðnaðarnefnd hafi óskað eftir fundinum. „Vissum við fyrirfram ekki um efni fundarins nema að það ætti að fara yfir stöðuna. Þar vorum við spurðir almennt um stöðuna og þar var þeim greint frá ákveðnum erfiðleikum í skipulagsmálum, áhrifum gengisfalls og lokun erlendra lánsfjármarkaða. Fram kom að langtímaskuldir HS væru 26 milljarðar en hefðu verið rúmir 12 í ársbyrjun (nýjar lántökur 2 milljarðar). Gengistap er þá um 12 milljarðar.“ segir Júlíus.
Í fréttinni er haft eftir Júlíusi að staða fyrirtækisins sé alvarleg eins og flestra fyrirtækja í landinu. . „Þarna vantar samhengi því það sem þetta á við kemur á eftir undir fyrirsögninni: Framkvæmdir í uppnámi“. Almennt er staða fyrirtækisins rekstrarlega mjög sterk m.a. vegna þess að beinar árlegar tekjur í erlendum gjaldeyri hækka verulega vegna gengisbreytinga ársins og miðað við álverð í október er sú árlega hækkun næstu 18 – 20 árin um 2 milljarðar,“ skrifar Júlíus í athugasemdum sínum.
Þá er haft eftir Júlíusi að lánafyrirgreiðsla til fyrirtækisins sé lokuð í augnablikinu og líklegt sé að hún verði það út árið hið minnsta. Júlíus vill taka fram að þarna sé verið að tala um erlend lán „en sundurslitið er þetta mjög neikvætt. Við höfum hinsvegar verið að vinna að skuldabréfaútgáfu innanlands sem hefur verið í ágætum farvegi.“
Að lokum er haft eftir Júlíusi að augljóslega geti Hitaveitan ekki lengi þolað erfiða fjárhagsstöðu krónunnar ef lánamarkaðir opnist ekki. „Aftur er þetta villandi þar sem þarna er eingöngu átt við framkvæmdir sbr. að ofan en ekki almennan rekstur,“ segir Júlíus.