Forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar - Sækist ekki eftir starfinu áfram
Ómar Kristjánsson, forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sótti ekki um að gegna starfinu áfram og lætur af störfum um mánaðamótin. Þetta kom fram á mbl.is.Starfið var auglýst laust til umsóknar samkvæmt nýrri skipan um rekstur flugstöðvarinnar í síðasta mánuði bárust 20 umsóknir um stöðuna.Ómar segir að það eigi ekki að koma neinum á óvart að hann sækist ekki eftir að halda starfinu áfram. „Ég er búinn að starfa á Keflavíkurflugvelli í fjögur ár með miklu ágætis samstarfsfólki, tvö ár sem framkvæmdastjóri og tvö ár sem forstjóri en umræðan undanfarið hefur snúist um að ég sitji þar í skjóli Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og að hann sé sérstakur velgjörðarmaður minn.“ Ómar segir að málum sé ekki þannig háttað og nefnir m.a. því til stuðnings að hann hafi upphaflega verið valinn af stjórnendum flugvallarins sem framkvæmdastjóri flugstöðvarinnar árið 1996 úr stórum hópi umsækjenda.„Þessi umræða undanfarið hefur hjálpað mér í því að taka þá ákvörðun að sækja ekki um starfið. Jafnframt finnst mér þetta vera hentugur tími til að hætta. Góður árangur hefur náðst í rekstri flugstöðvarinnar með samstilltu átaki starfsfólks stöðvarinnar.“