Forsetinn minntist þess þegar VF klippti Dorrit út úr blaðinu - hefur kosningabaráttuna í Grindavík
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands ætlar að hefja kosningabaráttu sína vegna forsetakjörs 2012 í Grindavík á morgun mánudag. Þá á hann afmæli en þennan dag eiga þau hjón, Ólafur og Dorrit einnig brúðkaupsafmæli. Dorrit kom fyrst til Íslands 1999 þegar hún var viðstödd formlega opnun Bláa lónsins og Grindavík var fyrsti bærinn sem hún heimsótti á Íslandi. Víkurfréttir voru á staðnum 1999 og var fyrsti fjölmiðillinn sem myndaði verðandi forsetafrú en vissi það ekki og klippti hana út úr myndum frá athöfninni þegar blaðið birti myndir frá opnun lónsins.
Ólafur Ragnar sagði í viðtali á Bylgjunni í morgun að m.a. í ljósi þess að Grindavík hefði verið fyrsti bærinn sem Dorrit hafi heimsótt hafi stuðningsmönnum þeirra í Grindavík og þeim hjónum þótt það vel við hæfi að kosningabaráttuna þar.
Ólafur Ragnar sagði í upphafi viðtalsins við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í morgun að Víkurfréttir hefðu verið fyrsti fjölmiðillinn til að mynda Dorrit en hefði klippt hana út því blaðið hefði haldið að hún væri vinkona Tinnu dóttur hans.
Hér er texti úr fréttinni á vf.is:
Dorrit Moussaieff forsetafrú fékk heldur óblíðar móttökur hjá umbrotsmanni Víkurfrétta árið 1999. Tímarit Víkurfrétta, sem gefið var út í fyrsta skipti árið 1999 birti myndasyrpu frá opnun Bláa lónsins á nýjum stað í glæsilegu umhverfi. Ólafur Ragnar, forseti Íslands, mætti í opnunarhófið og í föruneyti hans var myndarleg, dökkhærð kona með alveg risastóran trefil. Konan var alltaf að flækjast inni á öllum myndum Halldórs Rósmundar, ljósmyndara Víkurfrétta. Páll Ketilsson, ritstjóri VF mundaði sjónvarpsvélina og flutti frétt á Stöð 2 eftir opnun Bláa lónsins og þar mátti sjá þessa konu í ferð með forsetanum en enginn vissi hvað hún væri að gera með honum.
Þegar kom að því að setja myndirnar frá opnun Bláa lónsins í tímarit Víkurfrétta fékk Dorrit ekki náð fyrir augum ritstjórnar og var klippt út, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Tímarit Víkurfrétta var vart komið úr prentun þegar símhringingum tók að rigna inn frá nokkrum af stærstu fjölmiðlum landsins. Spurningin var: „Eigið þið nokkuð mynd af dökkhærðri, myndarlegri konu sem var í fylgd með Ólafi Ragnari við opnun Bláa lónsins?“
Þegar filmurnar frá athöfninni voru skoðaðar nánar fannst þessi kona sem síðar varð forsetafrú Íslands. Víkurfréttamyndirnar af henni birtust síðan á forsíðu DV sem var fyrsta blaðið til að þefa uppi fréttina um nýja forsetafrú, tímaritsins Séð og heyrt og fleiri blöðum á næstu dögum.