Forsetinn á Dýrunum í Hálsaskógi
„Leikgleðin og metnaðurinn þar ekkert að vera minni í áhugaleikhúsunum. Það sáum við suður með sjó,“ segir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson á Facebook, en hann skellti sér í leikhús með börnunum sínum um síðustu helgi þar sem hann sá Dýrin í Hálsaskógi hjá Leikfélagi Keflavíkur.
Dýrin í Hálsaskógi, sem leikfélagið setti upp í haust, hefur notið gríðarlega mikilla vinsælda undanfarin misseri og er leikritið það vinsælt að boðið var upp á nokkrar aukasýningar til að anna eftirspurn.
Þetta hafði forsetinn að segja um sýninguna:
„Um helgina var haldið í Bítlabæinn og farið í leikhús. Leikfélag Keflavíkur sýnir núna Dýrin í Hálsaskógi og fórst það vel úr hendi. Ekki var síður gaman á Himnaríki og helvíti í Borgarleikhúsinu og þar áður Hafinu í Þjóðleikhúsinu, þótt efnistökin séu vissulega önnur. En leikgleðin og metnaðurinn þarf ekkert að vera minni í áhugaleikhúsunum. Það sáum við suður með sjó og þökkum kærlega fyrir okkur.“