Forseti Úkraínu fékk fisk á Duus
– fjölmenn lífvarðasveit í fylgd forsetans
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, birtist skyndilega á veitingahúsinu Café Duus í Keflavík á dögunum ásamt lífvarðasveit. Úkraínuforseti fékk sér fisk og líkaði vel.
Poroshenko var á leið yfir hafið og millilenti á Keflavíkurflugvelli til að taka eldsneyti á leið sinni til fundar hjá Sameinuðu þjóðunum.
Sigurbjörn Sigurðsson, veitingamaður á Café Duus, sagðist ekki ræða einstaka gesti við fjölmiðla. Víkurfréttir hafa þó heimildir fyrir því að áður en forsetinn kom hafi hópur lífvarða hans komið og tekið út öryggismál á veitingahúsinu. Hópurinn kom svo síðdegis sl. föstudag og fékk sér fisk af matseðli staðarins.
Heimildir Víkurfrétta herma að Petro Poroshenko hafi líkað fiskurinn vel og farið sáttur af landi brott ásamt um fimmtán manna lífvarðasveit.