Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forseti ASÍ með 1. maí ávarpið í Stapa
Gylfi Arnbjörnsson flytur ávarpið í Stapa í dag. VF-myndir: Hilmar Bragi
Föstudagur 1. maí 2015 kl. 18:13

Forseti ASÍ með 1. maí ávarpið í Stapa

Keflvíkingurinn Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var aðalræðumaður á 1. maí hátíðarhöldunum í Stapa í Reykjanesbæ í dag. Þar flutti hann eftirfarandi ræðu:

Jöfnuður býr til betra samfélag!

Ágætu félagar,
Ég vil byrja á því að óska launafólki um allt land til hamingju með baráttudag verkalýðsins. Samhliða því sem við rifjum upp árræði og dug íslensks verkafólks, sem um árabil hefur háð harða baráttu fyrir betra samfélagi, fyrir jöfnuði og jafnrétti og þeim réttindum á vinnumarkaði sem flestum okkar finnast sjálfsögð í dag, er ljóst að við stöndum enn einu sinni frammi fyrir alvarlegri áskorun í baráttu fyrir réttmætum launahækkunum og jöfnuði. Við njótum daglega ósérhlífinnar baráttu forvera okkar en erfið staða í kjaraviðræðum undanfarið kallar á að við leggjum öll hönd á árar til að komast í gegnum brimskafla óréttlætis og misskiptingar.

Yfirskrift 1. maí í ár er Jöfnuður býr til betra samfélag! Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að sótt er að okkur og skipulega dregið úr jöfnuði hér á landi. Núverandi ríkisstjórn hefur verið grímulaus í því að létta byrðum af breiðu bökunum í þjóðfélaginu og flutt yfir á þá sem minna mega sín. Matarskatturinn var hækkaður, kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu aukinn, framlög til jöfnunar á mikilli örorkubyrði lífeyrissjóða verkafólks og sjómanna voru skert og bótatími atvinnulausra styttur um sex mánuði. Á sama tíma var eignarskattur á ríkasta fólkið í landinu aflagður og veiðigjöld á útgerðina stórlega lækkuð. Hvernig má það vera, að stjórnvöld ákveða að úthluta 80 milljörðum af sameiginlegum tekjum okkar til þeirra sem ekki eru í neinum sérstökum húsnæðisvanda á sama tíma og þau skella skollaeyrum við kröfum okkar um framlög til að tryggja ungu fólki og tekjulágum öruggt húsnæði. Það er því engin vafi á því að þetta hefur verið ríkisstjórn ríka fólksins sem ekki hefur viljað hlusta á hvað þá koma til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um aukin jöfnuð og réttlæti. Í kjölfarið ríkir mikil tortryggni og vantraust í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda sem vandséð er hvernig eigi að bæta.



En misskiptingin birtist víðar því ljóst er að bilið milli þeirra sem hafa nóg milli handanna og þeirra sem búa við lægstu kjör er sífellt að breikka.  Ákvarðanir um kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja undanfarið bera augljós merki þess að æðsta forysta fyrirtækjanna í landinu eru í vaxandi mæli að einangrast frá starfsmönnum sínum, frá þjóðinni, og skilja hvorki væntingar þeirra né þarfir. Hvernig geta menn leyft sér að fara fram með harkalega gagnrýni á kröfugerð launafólks um mannsæmandi laun á sama tíma og lagt er til tugprósenta hækkun á eigin kjörum? Ég tel þetta vera mikið áhyggjuefni, því ef forysta fyrirtækjanna í landinu er ekki lengur samkvæm sjálfri sér, verður afleiðingin aukin misskipting og ójöfnuður. Vaxandi bil á milli ríkra og fátækra á þessu litla landi okkar er og verður óásættanlegt, landi sem þó hefur upp á svo ótrúleg náttúrugæði að bjóða að það er hægur vandi að skipta afrakstrinum bróðurlega til heilla fyrir alla. Ekki bara suma.

En góðir félagar,
afleiðingin er ekki bara aukin misskipting, því misskiptingin sjálf leiðir til vaxandi óánægju, grefur undan sáttinni og leiðir á endanum til átaka í samfélaginu eins og raun ber vitni. Ríkisstjórn sem vinnur gegn hagsmunum þorra fólks í landinu, en ekki með því, lendir í vandræðum. Svik stjórnvalda í Evrópumálunum er gott dæmi en báðir stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar, og það margoft, að þjóðin fengi að kjósa um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ég nefni þetta því í nýlegri skýrslu KPMG um afnám hafta með evru kom fram að áhættan af afnámi hafta, sem almennt er talin mikil vegna hættu á verulegri gengisfellingu, væri miklum mun minni fyrir bæði launafólk og fyrirtæki ef hér yrði tekin upp evra. Það er því ekki boðlegt að ríkisstjórn sem ætlast til þess að launafólk stemmi væntingar sínar til bættra lífskjara af m.v. efnislegar og efnahagslegar forsendur þjóðarbúsins, slái út af borðinu eina raunhæfa kostinum sem gæti lagt grunnin að traustari peningamálstefnu þjóðarinnar, lækkað vexti og matarverð umtalsvert svo fátt eitt sé talið og það án umræðu! Gleymum því ekki að heimilin í landinu þurfa að ráðstafa um fimmtungi ráðstöfunartekna sinna til að standa undir þeim vöxtum sér hér eru og hafa löngum verið.

Allt leggst þetta síðan á eitt þannig að íslenskur vinnumarkaður logar nú í illdeilum, verkfall háskólamanna hefur staðið á fjórðu viku og félaga okkar í Starfsgreinasambandinu á landsbyggðinni hófu aðgerðir í gær og fyrirsjáanleg eru mikil átök á næstu vikum ef félagsmenn í Flóabandalaginu og verslunarmannafélögunum ákveða að boða verkföll. Það er því alveg ljóst að þeir kjarasamningar sem ríki og sveitarfélög gerðu í kjölfar kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ og BSRB í fyrra og einkum samningum ríkisins við lækna í byrjun þessa árs, hafa lagt grunn að mikilli reiði félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.

Ég hef alltaf verið talsmaður þess að verkalýðshreyfingin eigi að beita afli sínu af hógværð og skynsemi og viljað fylgja sömu stefnu og félagar okkar á hinum Norðurlöndunum. Sú stefna byggir í megin atriðum á sömu leið og ákveðin var með Þjóðarsáttinni fyrir aldarfjórðungi, þ.e. að byggja kaupmátt og lífskjör okkar upp í hægum en öruggum skrefum á grundvelli stöðugleika og lágra vaxta. En slík stefna verður einnig að hvíla á þeirri meginforsendu að það sé á ábyrgð okkar allra að draga úr launamun og bæta kjör þeirra lægst launuðu með markvissum hætti. Þannig hafa frændur okkar á hinum Norðurlöndunum hægt og bítandi farið langt fram úr okkur í lífskjörum og kaupmætti. Markmið kjarasamninga okkar fyrir ári síðan, með svokölluðum aðfararsamningi, var að leggja grunn að slíkri vegferð en því miður tókst ekki að skapa um það næga sátt. Að sama skapi er mjög mikilvægt að öllum sé það ljóst að af hálfu Alþýðusambandsins verður engin sátt um það að almennt launafólk verði eitt látið axla ábyrgð á forsendum gengis og verðstöðugleika á meðan aðrir taki sér launahækkanir svo tugum prósenta skipti. Krafa okkar aðildarfélaga er því að kjör okkar fólks verði leiðrétt m.v. það sem á undan er gengið, að þeir fái að búa við sömu leikreglur og aðrir.

Ágætu félagar,
Á undanförnum vikum höfum við, samhliða kröfu okkar og viðræðum um leiðréttingu kjara, rætt við bæði forystumenn ríkisstjórnarflokkana og oddvita stjórnarandstöðunnar um endurbætur samningamódelinu með það að markmiði að skapa raunhæfar forsendur fyrir meiri sátt í þessu landi. Á undanförnum árum höfum við í vaxandi mæli mátt búa við það, að ríkisstjórnir telja sig ekki bundnar af ákvörðunum fyrri ríkisstjórna, jafnvel þó þær byggi á niðurstöðu í þríhliða viðræðum. Við slíkar aðstæður er vandséð hvernig launafólk á að geta reitt sig á aðkomu stjórnvalda til lausnar á kjaradeilu, þegar engin fullvissa er fyrir því að slík aðkoma haldi þegar ný ríkisstjórn tekur við. Það er engin vafi í mínum huga að þetta skeytingaleysi gagnvart gildi þríhliða viðræðna er ein af meginástæðum þess trúnaðarbrests sem ríkir milli vinnumarkaðarins og stjórnmálanna sem við verðum að finna lausn á. Okkar krafa er í fyrsta lagi að ríkisstjórnir virði gerða kjarasamninga en jafnframt höfum við lagt áherslu á að vilji launafólks til að axla ábyrgð á efnahagsstefnunni með gerð hógværa kjarasamninga byggir á þeirri forsendu að geta bæði gengið að því sem vísu að gengi krónunnar sé stöðugt og að öryggi velferðarkerfisins sé tryggt.

Það er mikilvægt að stjórnmálamenn átti sig á því að hagkvæmni og framleiðni í atvinnulífinu byggir ekki bara á efnislegum stoðum heldur einnig á félagslegum stoðum á borð við menntun, dagvistun, heilbrigði, lágmarkslífeyri o.s.frv. Því hvílir sáttin um þessa samfélagsgerð á því að það sé jöfnuður og réttlát tekjuskipting, jöfn tækifæri og að allir leggi til eftir getu og fái notið eftir þörfum. Eins og ég hef hér rakið skortir verulega á að hér sé rétt á málum haldið. Þvert á móti fullyrði ég að hér sé vitlaust gefið, það hallar einfaldlega verulega á launafólk í landinu í skiptingu þeirra verðmæta sem hér verða til! Því eiga skilaboð okkar til bæði ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokkanna allra að vera skýr. Það verður að setja velferð almennings í öndvegi því það eru stór velferðarverkefni óleyst og ófjármögnuð sem brýnt er að leysa. Við eigum að gera lausn þeirra að  mikilvægum þætti í langtíma sátt á vinnumarkaði og í samfélaginu. Ég nefni hér félagslegt húsnæðiskerfi fyrir tekjulágar fjölskyldur og aukna aðstoð við þá sem eru á leigumarkaði, jöfnun lífeyrisréttinda og endurbætur á almannatryggingakerfinu með verulegri lækkun á óréttlátri tekjutengingu og skerðingu bóta, raunhæf og löngu brýn úrræði í búsetu og þjónustu við aldraða, sem er okkur til mikillar skammar og grettistak við að lækka óheyrilegan tilkostnað heimila vegna heilbrigðiskerfisins. Með sanngjarnri skattlagningu og réttlátri notkun á afrakstri verðmætra auðlinda okkar samhliða því sem lækkun á skuldum ríkisins sparar verulegar vaxtagreiðslur er það sannfæring mín að ef þessi verkefni yrðu sett á dagskrá væri hægt að leggja grunn að meiri sátt bæði á vinnumarkaði og í landinu öllu.

Góðir félagar,
Aðildarfélög ASÍ hafa löngum verið treg á að grípa til verkfallsvopnsins því samfélagslegur kostnaður verkfalla er mikill og því mikil ábyrgð sem fylgir notkun þeirra. Það er langt síðan við höfum beitt þessu vopni okkar en ég lít hins vegar þannig á að það sé búið að stilla almennu launafólki upp við vegg og við eigum engra annarra kosta völ en að grípa til verkfallsvopnsins. Ekki einungis hafa stjórnvöld misboðið okkur með framgöngu sinni heldur er langlundargeð okkar gagnvart atvinnurekendum þrotið og ekki bætir úr skák þegar einu viðbrögð einstakra forystumanna stórfyrirtækja eru hroki og fyrirlitning.

Ég hef sagt það áður að við verðum líka að gera okkur grein fyrir því, að Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þess eru mjög vel skipulögð, miðstýrð og fjárhagslega sterk samtök. Það duga því engin vettlingatök í glímunni við þau og þess vegna hef ég verið talsmaður þess að sameina afl aðildarfélaga og félagsmanna Alþýðusambandsins undir einum fána 110 þúsund félagsmanna til þess að hámarka þrýstinginn og herkostnað atvinnurekenda þegar í upphafi. Það er hins vegar ekki af léttum hug sem ég, forseti ASÍ, legg þetta til. Við skulum þó vera minnug þess að þegar allir taka á árinni verður álagið á hvern og einn minna, en sameinað afl okkar í samstöðunni þeim mun meira. Þannig hefur verkalýðshreyfingin náð árangri, þannig höfum við breytt samfélaginu. Þannig tryggjum við að jöfnuður býr til betra samfélag!

Gleðilegt sumar og til hamingju með þennan mikilvæga baráttudag okkar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024