Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forsætisráðherra: Hentar mjög vel að hafa Landhelgisgæzluna í Keflavík
Föstudagur 11. mars 2005 kl. 01:32

Forsætisráðherra: Hentar mjög vel að hafa Landhelgisgæzluna í Keflavík

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði á opnum stjórnmálafundi í Reykjanesbæ í kvöld að það hentaði mjög vel að Landhelgisgæzlan yrði staðsett á þessu svæði í framtíðinni. Í Keflavík væri mjög góð aðstaða, bæði á flugvellinum í sambandi við hafnaraðstæður.

Forsætisráðherra sagði í viðtali við Víkurfréttir í kvöld að það liggi fyrir að ef Íslendingar taki að sér meiri verkefni í tengslum við Keflavíkurflugvöll, þá komi þau einkum í hlut lögreglunnar og Landhelgisgæzlunnar. Halldór nefndi að ef Íslendingar þyrftu að taka yfir starfsemi þyrlureksturs sem verið hefur í höndum Varnarliðsins, þá gæti hentað mjög vel að Landhelgisgæzlan yrði staðsett á þessu svæði í framtíðinni.

Fram kom á fundum að það sé ljóst að Íslendingar geti ekki staðið frammi fyrir því sem þjóð að stóla bara á eina þyrlu. Fari Varnarliðið á brott með sínar þyrlur, sé eðlilegt að efla starfsemi Landhelgisgæzlunnar á þessu svæði. „Þetta mál þarf að vinna áfram,“ sagði Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra á fundinum í Reykjanesbæ.

Halldór benti jafnframt á að lögreglan á Keflavíkurflugvelli verði efld og t.a.m. verði tólf manna sveit svokallaðra Víkingasveitarmanna starfandi á Keflavíkurflugvelli.

Aðspurður um aukinn kostnað Íslendinga af rekstri Keflavíkurflugvallar, m.a. vegna minnkandi starfsemi Varnarliðsins, sagði Halldór Ásgrímsson, að það væri aðallega rekstur flugbrauta og þátttaka í starfsemi slökkviliðs og annað sem tengist borgaralegu flugi, sem væri eðlilegt að Íslendingar tækju þátt í kostnaði við.

„Við höfum sagt við Bandaríkjamenn að við værum tilbúnir að taka þátt í því en við bíðum eftir því að samningar geti hafist. Við teljum að allar vísbendingar bendi til þess að þeir vilji vera hér áfram með flugvélarnar og við teljum það vera meginatriðið og í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda. Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur hingað í næsta mánuði og þá verða viðræður við hann um málið en við höfum fengið jákvæðar vísbendingar frá Bandaríkjaforseta,“ sagði Halldór í samtali við Víkurfrétti.

Halldór vildi ekki tjá sig um það hvenær Íslendingar tækju að sér auknar skyldur á Keflavíkurflugvelli, né vildi hann nefna upphæðir, þar sem um samningsatriði væri að ræða á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda.


Þingsályktun um úttekt á kostum þess að flytja LHG til Suðurnesja

Umræðan um flutning Landhelgisgæzlunnar til Reykjanesbæjar er ekki ný af nálinni og meðal annars hefur Hjálmar Árnason, alþingismaður í samstarfi við þau Drífu Hjartardóttur, Brynju Magnúsdóttur, Jón Gunnarsson og Grétar Mar Jónsson lagt fram tillögu til þingsályktunar  um úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Hún hljómar svona:
„Alþingi ályktar að dómsmálaráðherra láti gera úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Skal þeirri úttekt lokið fyrir 15. febrúar 2004“.

Greinargerð.
Tillaga þessi felur í sér að dómsmálaráðherra láti fara fram úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Úttektinni skal lokið fyrir 15. febrúar 2004.
Á 116. löggjafarþingi flutti Árni R. Árnason sambærilega þingsályktunartillögu sem varð ekki útrædd.
Svo sem er kunna eru höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar í Reykjavík. Þar er skrifstofuhald stofnunarinnar, þar liggja skip hennar á milli verkefna og þar er flugkostur hennar einnig geymdur.
Færa má rök að því að heppilegra væri að mörgu leyti að hafa stofnunina á Suðurnesjum. Skal í fyrsta lagi bent á þann sparnað sem hlytist af því að varðskipin þyrftu ekki að sigla inn allan Faxaflóa á milli verkefna. Þar má spara nokkuð í olíukostnaði. Þá má benda á öryggissjónarmið en varðskipin eru á Suðurnesjum óneitanlega nokkru nærri almennum miðum heldur en í Reykjavíkurhöfn. Að auki má benda á að allþröngt er orðið um í Reykjavíkurhöfn, en hafnaraðstaða aftur á móti næg á Suðurnesjum.
Oft þarf að vera náið samstarf milli varnarliðsins og Landhelgisgæslunnar – ekki síst við skyndilegt útkall vegna björgunaraðgerða. Í slíka leiðangra eru ýmist sendar þyrlur gæslunnar eða varnarliðsins eftir aðstæðum hverju sinni. Með veru þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli má ná enn frekari samræmingu milli þessara aðila.
Á Suðurnesjum eru starfræktar tvær öflugar viðhaldsstöðvar flugvéla – önnur í eigu Flugleiða og hin á vegum varnarliðsins. Á vegum Flugfélags Íslands eru Fokker Friendship flugvélar en flugvél gæslunnar er af sömu tegund. Ætla má að ná megi samlegðaráhrifum með auknu samstarfi um viðhald og eftirlit flugvéla.
Hér hafa verið nefnd nokkur rök er mæla með flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja – öryggisrök og rekstrarleg rök. Til viðbótar þeim má nefna byggðarök en svo sem kunnugt er hefur hallað verulega undan fæti í atvinnulífi á Suðurnesjum – nú síðast við hópuppsagnir varnarliðsins. Með flutningi gæslunnar til Suðurnesja legði ríkisvaldið sitt af mörkum til að bregðast við vandanum.
Það er því full ástæða til að láta fara fram faglega úttekt á kostum þess að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja.

 

Myndir:

Efsta myndin: Suðurnesjamennirnir á TF-LÍF, Þórarinn Ingi Ingason flugmaður og Jakob Ólafsson flugstjóri.

Mynd í miðjunni: TF-LÍF í flugskýli Landhelgisgæzlunnar á Reykjavíkurflugvelli.

Neðsta myndin: Við æfingar um borð í TF-LÍF í Skerjafirði við Reykjavík sl. miðvikudag.

Ljósmyndirnar tók Hilmar Bragi Bárðarson. Hann var við æfingar með Landhelgisgæzlunni á miðvikudaginn en afraksturinn af þeirri ferð verður í Tímariti Víkurfrétta sem er væntanlegt innan skamms.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024