Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forsætisráðherra fundaði með bæjaryfirvöldum í Grindavík um náttúruhamfarir
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, og Fannar Jónasson, bæjarstjóri, tóku á móti Katrínu Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í anddyri bæjarskrifstofu Grindavíkur í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 9. september 2022 kl. 17:53

Forsætisráðherra fundaði með bæjaryfirvöldum í Grindavík um náttúruhamfarir

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með bæjarstjórn Grindavíkur í dag um náttúruhamfarir á Reykjanesskaganum og varnir mikilvægra innviða. Fundurinn var að frumkvæði forsætisráðuneytisins sem vildi heyra í heimafólki um framhaldið og næstu skref, enda reiknað með því að frekari jarðskjálftahrinur og eldsumbrot verið á Reykjanesskaganum á næstu misserum, árum og áratugum.

Þetta er ekki fyrsti fundur Katrínar með bæjarstjórninni. Síðast hitti hún bæjarstjórnina sama dag og rafmagnsleysi var í Grindavík í margar klukkustundir eftir jarðskjálfta í aðdraganda fyrsta eldgossins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikilvægt að hafa ákveðin plön

„Þetta er gríðarlegt álag á bæjarbúa og kallar á það að ríki, sveitarfélag og allir vinni einstaklega vel saman í að takast á við þetta. Það er ótrúlega gott að heyra í fólkinu hérna í bæjarfélaginu hvað það tekur öllu af miklu æðruleysi og ég þakka það líka hvernig sveitarstjórnin hefur haldið á málum og hvað það hefur verið gott samstarf allra aðila, hvort sem það eru Almannavarnir, Veðurstofan, jarðfræðingar og alla þá sem þurfa að koma að málum. Það er mikilvægt að við höfum ákveðin plön því við reiknum með því að þetta séu ekki einstakir atburðir, heldur að við getum átt von á þessu hvenær sem er,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í viðtali við Víkurfréttir eftir fundinn með bæjarstjórn Grindavíkur.

Katrín góður liðsmaður

„Það er ánægjulegt að forsætisráðherra hafði frumkvæði að þessum fundi og við fórum yfir stöðuna í jarðhræringum og framtíðarhorfur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Katrín leitar til okkar og hún hefur verið fremst í flokki æðstu ráðamanna þjóðarinnar að hafa samband við okkur. Hún er afskaplega góður liðsmaður og við höfum átt hana að,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í viðtali við Víkurfréttir eftir fundinn með forsætisráðherra.

„Á þessum fundi vorum við að fara yfir það sem við teljum að vanti upp á til að vera betur undirbúin og leita liðsinnis hennar og ríkisstjórnarinnar að fjármagna búnað og annað sem við þurfum að bæta við fyrir framtíðina og vera betur undir þetta búin. Við erum ekki að harma það að Grindavíkurbær taki að sér einhvern kostnað þegar við horfum til þess að þetta geti verið áframhaldandi verkefni. Við megum ekki láta það koma okkur að óvörum að við þurfum að vera vel tækjum búin og með allar áætlanir í lagi og það er það sem við vorum að leita til hennar með“.

– Hér eru mikilvægir innviðir á hættulegu svæði.

„Algjörlega og það er hið stóra verkefni að verja þessa innviði, rafmagnið, heitt og kalt vatn. Og svo vegina eftir atvikum. Við höfum lært mikið af þessum tveimur gosum. Það er hægt að bregðast við með leiðigörðum en það þarf allt viðbragð að vera klárt þegar og ef af því kemur að þurfi að koma þeim upp. Það er kannski munurinn á þessu og snjóflóðum að þau eru staðbundin fyrir ofan byggð og ákveðin svæði sem þarf að verja eða hemja. Hér erum við að tala um mikið stærra svæði þannig að stórir varnargarðar eða leiðigarðar, það er erfitt að koma þeim fyrir með löngum fyrirvara en það þarf að vera tilbúin áætlun ef á þarf að halda“.

Þú þegar liggur fyrir listi yfir stærstu tæki og öflugustu verktaka landsins og ríkislögreglustjóri tekur af skarið með að flytja þann búnað til svæðisins. „Þetta er eitt af því sem búið er að undirbúa en svo þarf bara að halda þessu við og gera jafnvel einhverskonar æfingar á þessu eftir atvikum.

— Hvernig er tónninn í bæjarbúum núna þegar tvö gos eru að baki, eru gosin þægilegri en skjálftarnir?

„Miklu þægilegri. Það er ákveðinn léttir að fá gos á þessum stað og vera þar með laus við jarðskjálftana. Við hefðum ekkert harmað það þó svo það myndi malla þarna þetta meinlitla gos með hraunflæði í einhvern tíma. Staðurinn er sá allra besti en við þurfum að vera við því búin að þetta gerist ekki alltaf með þessum hætti og við ræddum það við ráðherra og Katrín er mjög vel að sér í þessu og hefur tekið málið upp bæði í ríkisstjórn og þjóðaröryggisráði. Hún er vel að sér í okkar málum,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við Víkurfréttir.

Við upphaf fundar forsætisráðherra með bæjaryfirvöldum í Grindavík í dag.