Forsætisráðherra: Eigendur Norðuráls og HS Orku hafa miklar samfélagslegar skyldur á Suðurnesjum
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist vera alveg sæmilega bjartsýn á álver í Helguvík og að af verkefninu verði. Þetta kom fram á opnum fundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ í gær.
Jóhanna er þeirrar skoðunar að þegar niðurstaða verði fengin í orkukaup fyrir tvo fyrstu áfanga álversins, þá geti framkvæmdir farið af stað. Staðan sé núna sú að HS orka og Norðurál séu við samningaborðið og þokist nær niðurstöðu.
„Þessar framkvæmdir munu skapa hér fljótlega hátt í 2000 störf sem mun verulega slá á atvinnuleysi og skapa hagvöxt,“ sagði Jóhanna og bætti við að gert væri ráð fyrir þessum framkvæmdum í nýgerðum kjarasamningum.
Samningaviðræður HS orku og Norðuráls eru aðal grundvöllur þess að verkefnið nái fram að ganga.
„Ef að þær takast þá tel ég að við séum komin vel á veg. Þetta eru bæði einkafyrirtæki og í eigu erlendra móðurfélaga. Þau bera hins vegar mikla samfélagslega ábyrgð á svæðinu að mínu mati. Það er því mikilvægt að Norðurál og HS Orka semji um þessi ágreiningsmál sín á milli og hafi í huga að þau hafa hér ákveðnar skyldur,“ sagði Jóhanna á fundinum.
Hún nefndi einnig aðkomu lífeyrissjóða að Orkuveitu Reykjavíkur og mögulega orkusölu OR til álversins í Helguvík. Einnig talaði Jóhanna um mögulega 150 megavatta orkusölu Landsvirkjunar til álversins. Jóhanna sagði að stjórnvöld ættu ekki að skipta sér af orkusölu Landsvirkjuna og treysta ætti fyrirtækinu til að semja um orkumál með hag eigenda sinna að leiðarljósi.
Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, sagðist á fundinum í gærmorgun vera bjartsýnni en oft áður á verkefnið eftir símtal sem hann átti við Ragnar Guðmundsson, forstjóra Norðuráls í gærmorgun, þar sem hann hafi fengið nýjustu stöðuna á verkefninu í Helguvík. Björtustu vonir manna væru að framkvæmdir færu á fullt í Helguvík síðar á árinu. Eigendur HS Orku og Norðuráls hafa átt fundi í New York að undanförnu til að reyna að komast að niðurstöðu í orkumálum og koma þannig í veg fyrir að gerðardóm í Svíþjóð þurfi til að fá niðurstöðu í samninga.