Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fundaði í Reykjanesbæ
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hélt tveggja daga fund á Park-Inn hóteli í Reykjanesbæ í byrjun vikunnar. Fundinn sóttu um fimmtíu manns og gisti hópurinn í Reykjanesbæ. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður úr Reykjanesbæ, gegnir nú stöðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og var hún fulltrúi Íslands ásamt Steingrími J. Sigfússyni.
Hópurinn fór í Bláa lónið og fékk leiðsögn um tilurð og starfsemi þess. Að sögn Silju Daggar var hópurinn ánægður með skipulag fundarins. „Fólk var himinlifandi yfir baðferðinni og frábærum mat og þjónustu, bæði í lóninu og á hótelinu. Það sem toppaði baðferðina var hvað öllum fannst þeir fallegir og ungir eftir að hafa makað kísli í andlitið á sér.“
Í fundarsalnum voru settir upp básar þar sem túlkar sátu og túlkuðu fundinn fyrir Finna, Íslendinga og fulltrúa Eystrasaltsríkjanna, væri þess óskað. Íslendingar og Finnar lögðu fram sameiginlega tillögu á fundi Norðurlandaráðs sem haldinn var í byrjun nóvember um að finnska og íslenska yrðu jafnrétthá öðrum Norðurlandamálum í samstarfinu. Sú tillaga var rædd á fundinum í Reykjanesbæ og vísað áfram til frekari úrvinnslu. „Það er eitt að skilja Norðurlandamálin og annað að geta tjáð sig vel á þeim. Það er staðreynd að enskan hefur tekið við af dönskunni, sem í raun annað mál, að minnsta kosti hjá flestum. Hið sama gildir um Finnana þannig að það eru sífellt færri þingmenn sem tala reiprennandi önnur Norðurlandamál. Mér þykir því mjög mikilvægt að þessi tillaga verði samþykkti svo við Íslendingar stöndum jafnfætis öðrum Norðurlandaþjóðum í norrænu samstarfi,“ segir Silja.