Formleg opnun á Sjólyst á sunnudag
Sjólyst, söguhús Unu í Garði, verður formlega opnað gestum sunnudaginn 30. maí eftir gagngerar endurbætur. Húsið verður opið frá klukkan 14:00 til 16:00. Á dagskrá verða meðal annars ávörp og tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum í Garði. Boðið verður upp á veitingar og húsið sýnt.
Húsið Sjólyst var byggt árið 1890 og seinna var byggt við það. Sjólyst þarfnaðist mikilla endurbóta þegar Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Garði tók við húsinu en eigandi þess er Suðurnesjabær.
Eitt af markmiðum félagsins var að styðja við sveitarfélagið í þeim framkvæmdum sem framundan voru. Það hefur Hollvinafélagið gert og margir lagt verkefninu lið. Hollvinafélagið sótti um styrki til verkefnisins, ber þar helst að nefna Húsfriðunarsjóð og Uppbyggingarsjóð Suðurnesja. Fá þeir miklar þakkir fyrir veittan stuðning sem og aðrir sem stutt hafa við félagið með framlögum eða sjálfboðavinnu.
Þann 18. nóvember 2020, á fæðingardegi Unu, var húsið tilbúið. Stjórn Hollvinafélagsins hefur síðan lagt mikla vinnu í að búa húsið munum sem gefnir hafa verið eða tilheyrðu Unu á sínum tíma. Vegna sóttvarnareglna var ekki hægt að sýna húsið fyrr.
Afar vel hefur tekist til með endurgerð hússins sem er friðað. Smiðir verksins eru þeir Ásgeir Kjartansson og Bjarki Ásgeirsson. Arkitekt er Magnús Skúlason. Fá þeir miklar þakkir fyrir vel unnin störf sem og allir aðrir sem að verkinu komu. Suðurnesjabær fær ennfremur þakkir fyrir samstarfið og traustið í þessu verkefni.
Í sumar verður Sjólyst opin fyrir gesti um helgar frá klukkan 14:00 til 16:00 Heitt verður á könnunni og sagan rifjuð upp.
Stjórn Hollvinafélags
Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst