Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Formaður GVS: „Þökkum fyrir að ekki fór verr“
Þriðjudagur 16. nóvember 2010 kl. 16:28

Formaður GVS: „Þökkum fyrir að ekki fór verr“

Það hefur væntanlega farið um marga meðlimi Golfklúbbs Vatnsleysustrandar þegar fréttir bárust af því í gær að eldur væri í klúbbhúsi klúbbsins. Sem betur fer var það ekki sjálft klúbbhúsið sem varð eldi að bráð heldur lítill skúr sem stendur við klúbbhúsið og hefur verið notaður sem lagergeymsla og skrifstofa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það voru ekki mikil verðmæti þarna inni og því eru tjónið ekki verulegt. Tryggingafélagið mun fara yfir þetta í dag og vonandi fáum við þetta bætt,“ segir Andrés Guðmundsson, formaður GVS, sem þakkar fyrir að ekki fór verr.

„Það voru athuglir vegfarendur sem sáu reyk leggja frá klúbbhúsinu og hringdu á neyðarlínuna. Mér er sagt að aðeins mínútuspursmál hafi verið á því að eldurinn næði að teygja sig yfir í klúbbhúsið og því þökkum við fyrir að ekki fór verr. Það hefði verið reiðarslag fyrir klúbbinn.“

Mikill uppgangur var hjá GVS fyrir tveimur árum þegar og var meðlimafjöldi kominn upp í 300 þegar mest lét. „Eftir að Setbergsklúbburinn var endurstofnaður fóru margir kylfingar aftur í sinn gamla klúbb og núna erum við um 230,“ segir Andrés en á stefnuskránni var að stækka völlinn upp í 18 holur. Formaðurinn segir að ekki verði farið í þær framkvæmdir á næstunni.

„Það var svolítil 2007 hugmynd að ætla sér að stækka völlinn upp í 18 holur en það er eitthvað sem við stefnum að í framtíðinni. Við ætlum að hlúa vel að þessum skemmtilega níu holu velli sem við erum með og núna erum við einnig með frábært æfingarsvæði. Það er góð stemmning innan klúbbsins og við horfum björtum augum til framtíðar.“

Texti: kylfingur.is - Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson