Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Foreldrum boðið á námskeiðið „Að verða foreldri“
Hanna og Sigurður og Ljósbrá Líf.
Laugardagur 26. október 2013 kl. 10:00

Foreldrum boðið á námskeiðið „Að verða foreldri“

Grundvöllurinn fyrir hamingjusömum börnum og góðu fjölskyldulífi -eru hamingjusamir foreldrar

Grundvöllurinn fyrir hamingjusömum börnum og góðu fjölskyldulífi
-eru hamingjusamir foreldrar, segja þau Hanna María Kristjánsdóttir og Sigurður Ingi Kristófersson

Reykjanesbær býður, sem hluta af forvarnarstefnu sinni, verðandi foreldrum og foreldrum barna allt að 3ja ára aldri námskeiðið „Að verða foreldri“ að kostnaðarlausu. Ung hjón á Suðurnesjum, Hanna María og Sigurður Ingi sóttu námskeiðið og fannst það bæði  skemmtilegt og gagnlegt. Það vakti þau til umhugsunar um að hamingjusamir foreldrar og gott fjölskyldulíf eru grundvöllurinn að hamingjusömu lífi barnanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við vorum búin að vera saman í rúm tvö ár áður en við eignuðumst stelpuna okkar. Stefnan var alltaf að eignast börn saman og tilhlökkunin að sjálfsögðu mikil á meðgöngunni. Við gerðum okkur samt sem áður grein fyrir því að miklar breytingar yrðu þegar barnið kæmi í heiminn og vildum passa vel upp á samband okkar tveggja þó að fjölskyldan stækkaði. Þegar við sáum námskeiðið „Að verða foreldri“ auglýst ákváðum við því að skrá okkur,“ segir Hanna María Kristjánsdóttir forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja sem ásamt eiginmanni sínum Sigurði Inga Kristóferssyni byggingartæknifræðingi ákváðu að undirbúa sig saman fyrir foreldrahlutverkið.

Námskeiðið stuðlar að því að undirbúa verðandi foreldra og foreldra allt að 3ja ára barna að takast á við foreldrahlutverkið þannig að barnið sé félagslega og tilfinningalega heilbrigt. Til þess að það takist sem best er veitt fræðsla um hvernig efla má parasambandið samhliða foreldrahlutverkinu. Fjöldi rannsókna sýna að foreldrar upplifa minni ánægju í parsambandinu fyrstu árin eftir fæðingu og má rekja það til þeirra breytinga sem eiga sér stað í parsambandinu með tilkomu barns. Rannsóknir úr þessu námskeiði sýna að með undirbúningi megi snúa þessari breytingu við.

„Námskeiðið var bæði skemmtilegt og gagnlegt. Það vekur mann til umhugsunar um það sem við flest vitum, að grundvöllurinn fyrir hamingjusömum börnum og góðu fjölskyldulífi eru hamingjusamir foreldrar,“ segir Hanna María um reynslu sína af námskeiðinu. „Það minnir mann líka á það að hjónabandið er stanslaus vinna og það má ekki sofna á verðinum. Við fengum auk þess gagnleg ráð varðandi uppeldið sem koma sér alltaf vel. Við hvetjum alla verðandi foreldra til að skrá sig, jafnvel þó að börnin séu orðin fleiri en eitt og sambandið margra ára gamalt, því umfjöllunarefni námskeiðsins er vísa sem er aldrei of oft kveðin.“

Námskeiðið er haldið af Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd og verður í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 2. og 3. nóvember kl. 10.00–16.30 báða dagana.
Skráning hjá  RBF í síma 525-5200 og [email protected].
Ungabörn undir 6 mánaða aldri eru velkomin með foreldrum sínum.