Foreldrar lýsa yfir áhyggjum af mengun
Foreldrar barna í grunnskólanum Heiðarskóla og í leikskólanum Heiðarseli lýsa yfir þungum áhyggjum af mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Áhyggjunum komu foreldrafélög skólanna á framfæri við bæjarráð Reykjanesbæjar í gær.
Í bréf foreldrafélaganna segir að foreldrar lýsi yfir þungum áhyggjum af mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. „Heiðasel og Heiðarskóli, ásamt hluta byggðar í Reykjanesbæ, eru staðsettir á svokölluðu þynningarsvæði verksmiðjunnar. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunnar virðist gildi arsens, sem er eitrað efnasamband, langt yfir þeim mörkum sem gefin eru upp í mati á umhverfisáhrifum, eða allt að tuttugufalt meira. Í þessu ljósi taka stjórnir foreldrafélaga skólanna undir með bæjarstjórn Reykjanesbæjar, og telja óásættanlegt annað en að starfsemi kísilversins verði stöðvuð á meðan úrbætur á mengunarvörnum fara fram. Okkur er umhugað um velferð nemenda og starfsfólks skólanna. Samfélagið á ætíð að njóta vafans gagnvart mögulegri heilsufarslegri skaðsemi,“ segir í bréfinu.
Á vef Reykjanesbæjar segir að skólastjórnendur og fræðsluyfirvöld í bæjarfélaginu fylgist grannt með gangi mála og muni vera í góðu sambandi við Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja en það hefur umsjón með hollustuháttum í leik- og grunnskólum á svæðinu.
Heiðarskóli og Heiðarsel eru í næsta nágrenni við Helguvík. Þessi mælistöð Umhverfisstofnunar er við Heiðarskóla.