Fréttir

Foreldrafærninámskeið í Reykjanesbæ
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Miðvikudagur 18. janúar 2017 kl. 09:10

Foreldrafærninámskeið í Reykjanesbæ

-Á vegum fræðslusviðs Reykjanesbæjar

Fræðslusvið Reykjanesbæjar mun á næstu mánuðum standa fyrir nokkrum foreldrafærninámskeiðum. Námskeiðin eiga það sameiginlegt að vera byggð á jákvæðum og árangursríkum uppeldisaðferðum og hafa það markmið að styrkja foreldra í hlutverki sínu. „Foreldrar eru hvattir til þess að nýta þetta frábæra tækifæri til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu, samræma uppeldisaðferðir sínar og hitta aðra foreldra í sambærilegri stöðu,“ segir á vef Reykjanesbæjar. Þrjú námskeið verða í boði en það eru Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar (2-6 ára), Klókir litlir krakkar (3-8 ára) og Uppeldi barna með ADHD (5-12 ára). Hér að neðan má sjá frekari upplýsingar um námskeiðin.

Námskeiðið Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar er almennt foreldrafærninámskeið fyrir foreldra barna á aldrinum 2 til 6 ára. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að kenna foreldrum leiðir til að vera samtaka í uppeldinu og skapa æskileg uppeldisskilyrði sem ýta undir færni sem líkleg er til að nýtast barninu til frambúðar. Foreldrar læra aðferðir til að styrkja eigin hæfni, laða fram æskilega hegðun barnsins og fyrirbyggja erfiðleika á jákvæðan hátt. Námskeiðið er sérstaklega þróað fyrir foreldra barna á Íslandi, þar sem stuðst er við viðurkennd fræði og gagnreyndar aðferðir. Á vorönn 2017 verða haldin alls þrjú námskeið: Námskeið eitt verður 6. til 16. febrúar, námskeið tvö verður 27. febrúar til 9. mars, námskeið þrjú verður 20. til 30. mars. Frekari upplýsingar veitir Kristín Helgadóttir leikskólastjóri, sem hefur umsjón með námskeiðunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Forvarnarnámskeiðið Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir foreldra barna í leikskóla og yngstu bekkjum grunnskólans, sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir. Námskeiðið miðar að því að fræða foreldra um eðli kvíða, kenna þeim leiðir til að takast á við kvíðahegðun barna sinna og auka sjálfstraust þeirra. Vonast er til að með slíku forvarnarnámskeiði verði hægt að minnka kvíðahegðun barna og í sumum tilfellum koma í veg fyrir að börn þrói með sér kvíðaröskun seinna meir. Á vorönn verður haldið eitt námskeið á tímabilinu 7. febrúar til 28. mars. Frekari upplýsingar veitir Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur skólaþjónustu Reykjanesbæjar.

Uppeldi barna með ADHD er sérhæft námskeið ætlað foreldrum barna sem hafa hamlandi einkenni ofvirkni og/eða athyglisbrest (ADHD) samkvæmt formlegri skimun sálfræðings eða fullnaðargreiningu. Efni námskeiðsins hentar best fyrir foreldra barna á aldrinum 5 til 12 ára, sem hafa ekki margar eða flóknar fylgiraskanir. Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna og styðja þá í að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með ADHD. Foreldrar skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma. Á vorönn verða haldin tvö námskeið: Námskeið eitt verður 1. febrúar til 15. mars, námskeið tvö verður 29. mars til 10. maí. Frekari upplýsingar veitir Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur skólaþjónustu Reykjanesbæjar.