Fréttir

Fólk vandar sig við lántökur
Föstudagur 24. febrúar 2017 kl. 14:00

Fólk vandar sig við lántökur

segir Sighvatur Ingi Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ

„Frá 2014-15 hefur verið mikil aukning í því að fólk er að sækjast eftir húsnæðislánum. Við finnum mikið fyrir því að fólk á aldrinum 25 til 40 ára er að kaupa sér eignir og þá oft sína fyrstu eign,“ segir Sighvatur Ingi Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Reykjanesbæ. Sá hópur er helmingur af þeim sem eru að taka lán til húsnæðiskaupa hjá bankanum. Fyrir nokkrum árum var sá hópur 20-30% af þeim sem tóku slík lán.

Hvernig lán er fólk að taka í dag?
„Eftir hrun jókst það mikið að fólk var að taka óverðtryggð lán. Við höfum verið að sjá það stigvaxandi að fólk er að færa sig aftur í verðtryggð lán. Um 55% eru að taka óverðtryggð lán í dag eða blöndu af hvoru tveggja, á meðan 45% eru að taka þessi verðtryggðu lán. Fólk er miklu meðvitaðra um hvernig lán það er að taka núna heldur en áður.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Blönduð lán voru ekki í boði áður. Annað hvort var hægt að taka verðtryggt jafngreiðslulán til 25 eða 40 ára. Í dag eru valmöguleikarnir mun fleiri.

„Við skynjum miklar hækkanir og sjáum að fermetraverð er að hækka mikið. Atvinnulíf hefur tekið við sér og kaupgetan hefur aukist. Það er nóg af atvinnu að hafa hérna og fólk vill koma hingað og setjast að. Við finnum það mikið að fólk er að koma hingað frá Reykjavík. Þannig eru margir viðskiptavinir bankans sem eru í viðskiptum við útibú í Reykjavík en eru að taka lán hérna hjá okkur.“

Sighvatur segir að það sé ekki lengra síðan en 2013 að ekki hafi verið mikil hreyfing í húsnæðislánum. Síðan þá hafa lántökur tvöfaldast á milli ára til dagsins í dag.
„Svo erum við að finna fyrir því núna að það er takmarkað framboð af húsnæði. Ég er því ekki að finna aukningu á lánum núna heldur er stöðugt ástand. Fólk er mikið að hugsa um hvernig lán það er að taka. Það er ekki að eltast við að taka alveg eins lán og nágranninn. Fólk er að spá í hvernig húsnæði og lán hentar því og er að vanda sig.“

Útborgun og skortur á eigin fé er oftast hindrunin fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu eign. Sighvatur segir að sífellt fleiri nýti sér séreignarsparnað til þess að safna fyrir útborgun eða borga niður af lánum. „Mjög oft er eigið fé þröskuldur í kaupunum. Það hjálpar reyndar til hjá okkur að við erum að lána allt upp að 90% fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Það er að nýtast mörgum vel.“

Endurfjármögnun lána að gera vart við sig

Sighvatur segir að það sé töluvert um það að fólk sé að láta endurfjármagna lánin sín. Slíkt hefur ekki sést síðan á árunum 2005-7. Þá var fólk oft að taka slík lán og nýta sér í eyðslu. Eitthvað er um það að fólk taki þannig lán til þess að viðhalda húsunum sínum. Sighvatur býst við stöðugum horfum og sér ekki fram á mikla aukningu í húsnæðislánum á næsta ári. Þó eru verktakar í startholunum og hyggja á framkvæmdir.

„Við finnum fyrir því að hingað koma mikið af fyrirspurnum varðandi verktaka sem eru að fara að byggja hérna og vantar fjármögnun. Það eru mörg þannig verkefni í gangi í dag. Þannig að vonandi fer framboðið að aukast aftur og komast eitthvað jafnvægi á verðið.“