Fólk í hjólastól kemst ekki eitt í strætó
- Verður að hafa með sér aðstoðarmann
Notendur hjólastóla sem ferðast á milli höfuðborgarsvæðisins og annarra sveitarfélaga geta ekki nýtt sér þjónustu Strætó nema hafa með sér aðstoðarmann. Fjallað er um málið á Vísi. Í viðtali við Berg Þorra Benjamínsson, varaformann Sjálfsbjargar, kemur fram að hann hafi bent Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum á stöðuna þegar þau voru að fara af stað með sitt útboð. „Ég spurði hvort þau hefðu ekki hugleitt það að gera þessa kröfu í útboðinu, en svarið við því var einfalt nei,“ sagði Bergur í viðtali við Vísi.
Þegar fólk ferðast frá höfuðborgarsvæðinu og til nágrannasveitarfélaganna verður það að hafa með sér aðstoðarmann sem þarf að bera viðkomandi inn og út úr vagninum þar sem ekki er rampur á vögnum í utanbæjarakstri. Þeir vagnar eru eins og aðrar rútur. Fólk sem notast við hjólastól og hefur ekki aðstoðarmann verður því að ferðast með einkabíl eða sérútbúnum leigubíl.