Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fólk hvatt til að mæta fyrr í flug
Þriðjudagur 7. júlí 2015 kl. 09:12

Fólk hvatt til að mæta fyrr í flug

Langar biðraðir hafa myndast á álagstímum

Mjög langar biðraðir mynduðust á sunnudagsmorguninn síðasta við innritun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þurftu farþegar að bíða í allt að eina klukkustund eftir að komast að í innritun. Samkvæmt frétt á vefnum turisti.is mynduðust langar biðraðir, bæði við innritun og eins við vopnaleit um morguninn. Það voru einkum farþegar á vegum Icelandair sem þurftu að bíða í röð eftir innritun en allir farþegar þurftu þó að sætta sig við langa bið í röð við vopnaleit. Biðröðin í vopnaleitina náði allt niður í innritunarsalinn og þurfti fólk að bíða þar í allt að hálftíma.

Haft er eftir Guðna Sigurðssyni, talsmanni Isavia, á vef turisti.is, að aukning farþega í sumar hafi verið mun meiri en gert hafi verið ráð fyrir og erfiðara sé að ráða við hana en þeir hafi talið. Þá hafi einnig gengið illa að ráða aukin mannskap með stuttum fyrirvara og þjálfun á nýjum mannskap taki tíma. Verið er að vinna í stækkun flugstöðvarinnar og mun sú vinna taka tíma og gert sé ráð fyrir að einhverjir flöskuhálsar munu myndast á álagstímum vegna þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðni segir í viðtalinu að innritun muni hefjast fyrr en venja er vegna þessa ástands og hvetur fólk sem er að fara í flug að mæta þremur tímum fyrir brottför út á flugvöll. Venjulega hefur innritun ekki hafist fyrr en tveimur tímum fyrir brottför en vegna ástandsins og fjölgun farþega mun innritun nú hefjast þremur tímum fyrir brottför. Þetta á við alla álagstíma í flugstöðinni, á morgnana milli klukkan 6 og 8, fyrir síðdegisflug á milli klukkan 15 og 17 og fyrir kvöldflug sem fer um miðnætti. Með þessu móti ætti að vera hægt að forðast langar biðraðir, bæði í innritun og vopnaleit þrátt fyrir mikla fjölgun farþega.