Fólk hlýðir ekki fyrirmælum um að halda sig utan hættusvæðis
Lögregla og björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast við að aðstoða fólk við gosstöðvarnar frá því að opnað var fyrir almenning inn á svæðið í gær. Í gærkvöldi og í nótt er áætlað að um 200 til 300 manns hafi verið við gosstöðvarnar á hverjum tíma. Talið er að um tvö til þrjú þúsund manns hafi nú þegar heimsótt svæðið frá opnun þess. Björgunarsveitir komu sjö einstaklingum til aðstoðar í gær og nótt en ekki var um alvarleg tilfelli að ræða.
Lögreglan á Suðurnesjum bendir á að eingöngu er opið inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi en ekki frá öðrum vegum eða vegaslóðum. Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.
Leið upp að gosstöðvunum er það sem viðbragðsaðilar kalla Meradalaleið. Ganga þarf um tuttugu kílómetra leið fram og til baka, gönguferðin hentar því alls ekki öllum. Gangan fram og til baka tekur um þrjár til fjórar klukkustundir fyrir vanan göngumann.
Í tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum sendi út í morgun segir:
„Sem fyrr þá gengur ekki í öllum tilfellum vel að biðja fólk um að halda sig utan hættusvæðis. Við biðjum því fólk um að haga sér í samræmi við fyrirmæli lögreglu og björgunarsveita og fara ekki inn á merkt hættusvæði.
Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.“
Eins og fyrr segir er gangan að gosstöðvunum ekki á færi allra, því er mikilvægt að göngumenn klæði sig eftir veðri, taki með sér nesti og gleymi ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Ekki er tryggt öryggi farsíma á svæðinu.
Þeir gangi að gosstöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nestaðir. Fylgist með vindátt og fréttaflutningi. Sjá jafnframt upplýsingar á
Akstur utan vega er bannaður.
Ferðamenn fari að fyrirmælum viðbragðsaðila. Fjallið Keilir er inn á merktu hættusvæði.
Spá veðurvaktar um gasdreifingu:
„Norðan og norðaustan 8–13 m/s, heldur hvassara síðdegis á morgun. Gasmengunin berst til suðurs og suðvesturs og gæti hennar orðið vart m.a. í Grindavík og á Suðurstrandarvegi.
Spá gerð: 12.07.2023 08:40. Gildir til: 13.07.2023 23:59.“