Fólk gefur sér tíma til að sækja um störf í dag
Gunnar Halldór Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Virkjun mannauðs á Suðurnesjum, segir að menn megi ekki vera of fljótir að draga ályktanir af því ef aðeins hafi fimm umsóknir borist um störf við nýja saumastofu sem Víkurprjón ætlar að opna á Suðurnesjum. Umsóknarfresturinn sé til 24. maí nk.
Fjöldi prjónakvenna sækir Virkjun reglulega. „Í morgun var umræða hjá prjónakonunum um þetta og heyrðist mér á þeim að þær væru spenntar fyrir þessu. Það eru a.m.k. tvær búnar að sækja um og önnur fór í viðtal eftir hádegi í dag.
Þegar ég hef sótt um starf þá hef ég ávallt gefið þessu tíma til að íhuga varðandi stafið og sótt þá um rétt áður en umsóknarfrestur er liðinn. Ég get vel ímyndað mér að þannig eigi við þó nokkra,“ segir Gunnar Halldór og bætir við:
„Mín skoðun er sú að margir séu búnir að gefast upp á að sækja um störf þannig að það þarf að veita þessu fólki persónulega ráðgjöf og einnig „selja“ þeim þau störf sem er í boði. Eftir eitt ár, hvað þá fleiri, atvinnulaus verða menn áhugalausir og vonlausir og finnst það meiriháttar mál að sækja um störf og segja við sjálfan sig „það vill mig enginn, ég er vita gagnslaus“ og það er meiriháttar átak að koma sér aftur af stað. Þessir aðilar þurfa þá stuðning til þess að komast aftur á vinnumarkaðinn,“ segir Gunnar Halldór Gunnarsson hjá Virkjun í samtali við Víkurfréttir.