Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fólk gangi alls ekki á fjallið Þorbjörn, Hagafell eða önnur nærliggjandi fjöll
Grindavík og Þorbjörn. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 17. október 2024 kl. 16:49

Fólk gangi alls ekki á fjallið Þorbjörn, Hagafell eða önnur nærliggjandi fjöll

Opin svæði í nágrenni Grindavíkur eru viðsjárverð og hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, mælir alls ekki með því að fólk gangi á fjallið Þorbjörn, Hagafell eða önnur nærliggjandi fjöll. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóra til fjölmiðla.

Þar segir einnig að opnar sprungur liggja við Nesveg og á Hópsnesi. Ferðamenn eru á eigin ábyrgð í náttúru Íslands. Þá eru svæði norðan bæjarmarkanna varasöm.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúar, starfsmenn og aðrir sem dvelja inn á hættusvæði gera það á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.

Lögreglustjóri tekur fram í tilkynningunni að Grindavík er ekki ákjósanlegur staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar er ekkert skóla- og íþróttastarf.

Stefnt er að opnun Grindavíkurbæjar mánudaginn 21. október 2024, kl. 06:00 að öllu óbreyttu. Er það ákvörðun framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavík sem tilkynnt hefur verið fjölmiðlum.

„Vakin er athygli á því að á óvissustigi almannavarna virkjast ekki valdheimildir lögreglustjóra samkvæmt almannavarnalögum. Framkvæmdanefndin hefur verið í góðu samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Suðurnesjum. Áhættumat fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ ber nefndinni að gera í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Á grundvelli þess áhættumats verður almennri umferð hleypt inn í Grindavík. Gert er ráð fyrir því að nefndin sendi frá sér fréttatilkynningu um framangreint og þær hættur sem ber að varast innan sveitarfélagsins þegar nær dregur opnun,“ segir í tilkynningu lögreglustjóra.

Hagafell.