Fólk flykkist í vinnu hjá Réttinum eftir frétt
„Ég er eiginlega bara búinn að vera að tala við fólk síðan þetta birtist í dag. Ég vil bara þakka fyrir góð viðbrögð,“ segir Magnús Þórisson á Réttinum en fyrr í dag sagði hann frá því á vf.is að illa gengi að ráða fólk í aukavinnu.
„Fljótlega eftir að fréttin birtist streymdi fólk hingað og hringingar komu í röðum. Ég er kominn með lista með um tuttugu manns og ég er að velja úr því til að ráða,“ sagði Magnús.
Ljóst er að umfjöllun okkar í dag frá litlum viðbrögðum við atvinnuauglýsingum hefur vakið athygli. Fleiri fyrirtæki hafa hringt og sagt svipaða sögu og eigandi Víkurprjóns og Rétturinn þó vissulega sé misjafnt hvernig þessir aðilar hafi auglýst. Einnig hefur verið bent á að umsóknarfrestur hjá Víkurprjóni er til 24. maí.
Ásbjörn Pálsson hjá Menu veitingum sagðist hafa leitað eftir matreiðslumanni á Suðurnesjum en lítið gengið og því hefði hann reynt að auglýsa í Fréttablaðinu og á vef matreiðslumanna til að freista þess að fá kokk annars staðar frá en viðbrögðin hafa verið engin. Þetta sé því ekki eingöngu bundið við Suðurnesin.
VF-mynd: Magnús Þórisson fékk mikil viðbrögð eftir umfjöllun í dag.