Fólk fær læknisvottorð í gegnum síma
Dæmi eru um það að fólk fái læknisvottorð í gegnum síma sem síðan er framvísað hjá Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja. Þessi vottorð eru notuð til að komast hjá vinnu og til að halda atvinnuleysisbótum. Atvinnuleysi var rætt á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Sandgerði á dögunum. Ketill Jósepsson, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja ræddi þar um ástandið á atvinnuleysisskránni og hvort atvinnuleysið væri dulbúið.
Um fjórðungur atvinnulausra á Suðurnesjum er ungt fólk sem hefur hætt í námi, fólk sem flækist á milli vinnustaða og ber enga ábyrgð á sér né öðrum, eins og það var orðað í fyrirlestri Ketils Jósepssonar á aðalfundi SSS. Hann sagði þetta fólk ekki vera að standa sig á vinnumarkaði. Það virtist hins vegar vita allt um réttindi sín en minna um skyldur og ábyrgð, sagði Ketill.
Nú eru um 250 manns án atvinnu á Suðurnesjum og í fyrsta skipti í langan tíma er ekki mest atvinnuleysi á Suðurnesjum - Suðurnesin eru í 3. sæti þessa stundina.
Svæðisvinnumiðlun Suður-nesja er með ýmis úrræði fyrir atvinnulausa. Á síðasta ári fengu 44 aðilar inni í sérstökum verkefnum, 63 fengu starfsþjálfunarsamninga, tveir námssamningar voru gerðir, 141 aðili sótti námskeið, tveir vinnustaðanámssamningar voru gerðir og 11 styrkir voru veittir vegna námskeiða.
Í umræðum um atvinnuleysið spurði Jón Gunnarsson, alþingismaður, af því hvort það væri raunin að margir þeirra sem væru á atvinnuleysisskrá væru þar af því að það væri hagstæðara en að stunda vinnu. „Getur verið að stór hluti þeirra sem nú eru á skrá eigi heima annars staðar en á atvinnuleysiskrá? Er þetta raunatvinnuleysi?“ Spurði Jón.
Ketill Jósepsson sagði að alltaf væri ákveðinn hluti þeirra sem væru á atvinnuleysisskrá aðilar sem ættu heima annars staðar. „En hvar á þetta fólk að vera? Það er fátt um svör. Hins vegar höfum við brugðið á það ráð að vísa fólki til félagsþjónustu sveitarfélaganna, þegar það á ekki lengur innangengt hjá okkur“, sagði Ketill.
Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður, sagði það hafa stungið sig að heyra um þennan hóp sem vill ekki vinna, en veit allt um réttindi sín. Brottfalli úr skóla og agaleysi þurfi að taka á.
Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi og verkalýðsforingi, sagði það hættulegan samanburð að tala um háar atvinnuleysisbætur eða lág laun. Atvinnuleysisbætur væru trygging hins vinnandi manns þegar hann missir vinnuna. Guðbrandur sagði að hann vildi sjá atvinnuleysisbætur miklu hærri. Hann sagði fyrirtæki vera að stækka og mun hreyfanlegri. Þess vegna geti fólk misst vinnuna með litlum fyrirvara. Hann sagði það verk verkalýðshreyfingarinnar á næstu árum að tekju-tengja atvinnuleysisbætur.
Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúi, sagði að flokka mætti atvinnu-lausa í þrjá hópa. Þarna væri fólk á vinnumarkaði sem hefur ekki starf. Fólk í árstíðarbundnum eða hlutastörfum og í þriðja lagi væri þarna fólk sem í raun er ekki á vinnumarkaði en er að ná sér í framfærslu. Jóhann sagði að fólk ætti ekki að þurfa að lifa á lyginni og setja sig á atvinnuleysisskrá til að fá framfærslu sem ætti að koma annars staðar frá.
Ketill Jósepsson hjá Svæðis-vinnumiðlun Suðurnesja sagði stærstan hluta þess fólk sem er á atvinnuleysisskrá vera ófaglært fólk. Yfir 60.000 manns á vinnumarkaði í dag er fólk með grunnskólamenntun eða minna.
VF-mynd/Hilmar Bragi: Ketill Jósepsson í pontu