Föðurbetrungar í meistaramóti GS
Meistaramót Golfklúbbs Suðurnesja (GS) fór fram í síðustu viku og urðu þau Sveinn Andri Sigurpálsson og Fjóla Margrét Viðarsdóttir klúbbmeistarar. Segja má að feðgaslagir hafi staðið upp úr ásamt blíðu og frábæru standi Hólmsvallar.
Sveinn Andri varð klúbbmeistari karla og spilaði á -6 eða 278 höggum og pabbi hans, Sigurpáll Geir Sveinsson, endaði í þriðja sæti. Pétur Þór Jaidee lenti í 2. sæti. Fjóla Margrét var eini keppandinn í meistaraflokki kvenna og þ.a.l. öruggur klúbbmeistari kvenna en hún lék hringina þrjá á 217 höggi.
Í 1. flokki karla var sömuleiðis feðgaslagur, Snorri Rafn Davíðsson hafði betur gegn föður sínum, Davíð Jónssyni sem lenti í 2. sæti.
Sverrir Auðunsson er framkvæmdastjóri GS.
„Það var talsvert meiri þátttaka í meistaramótinu í ár en í fyrra eða 22% aukning. Það er auðvitað gleðiefni, völlurinn er í frábæru standi og veðrið lék við kylfinga alla dagana. Spilamennskan var mjög góð, alls sáust tíu hringir á eða undir pari. Gaman að sjá feðga berjast í meistaraflokki og 1. flokki og þarna eru greinilega föðurbetrungar á ferð. Það var einnig gaman að fylgjast með 2. flokknum þar sem tveir efstu, þeir Skarphéðinn (15 ára) og Þorgeir (66 ára) voru að keppast um efsta sætið. Þarna er skýrt dæmi um hversu mögnuð golfíþróttin getur verið að þrátt fyrir 49 ára aldursmun voru tveir félagsmenn að keppa sín á milli á jöfnum grundvelli. Lokahófið tókst síðan frábærlega og bauð vertinn í skálanum, Guðmundur Rúnar Lúðvíksson upp á sannkallaða veislu. Breytingin á vellinum kemur mjög vel út og að er gaman að taka þátt í þessum uppgangi GS með frábærum starfsmönnum og öflugum sjálfboðaliðum“ sagði Sverrir að lokum.