Fluttur nauðugur til Grindavíkur
- „Hreppaflutningar sem komu á óvart,“ segir Ólafur Þór Ólafsson bæjarfulltrúi
Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis, var fluttur nauðugur til Grindavíkur í morgun. Þessu komst hann að þegar hann mætti á fjármálaráðstefnu sveitarfélagana á Hilton Reykjavík Nordica í morgun.
„Mér líkar vel við Grindvíkinga og held að það sé alveg gagnkvæmt. Þessir hreppaflutningar komu mér samt á óvart!,“ skrifar Ólafur Þór á fésbókarsíðu sína í morgun. Hann er þátttakandi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem bæjarfulltrúi sameinaðs sveitarfélags en er sagður koma frá Grindavíkurbæ á eldrauðri hálsól sem honum var úthlutað í morgun.
Einar Jón Pálsson, bæjarfulltrúi í nafnlausa sveitarfélaginu skrifar við færslu Ólafs Þórs „Grindvíkingar eru svo viljugir að sameina“ og skreytir með hláturtákni.
Bryndís Gunnlaugsdóttir er fyrrum bæjarfulltrúi í Grindavík og aðstoðaði Garð og Sandgerði í sameiningarferlinu. Hún skrifar: „Sko, þótt þið getið ekki valið nafn þá þýðir ekkert að taka upp nafn annarra sveitarfélaga!“.
Sandgerðingurinn Helgi Haraldsson er þó með lausn á málinu fyrir Ólaf. „Næst stendur þarna Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi, Suðurnesjabær“.
Hvort Ólafur fékk nýtt skilti um hálsinn hefur ekki verið upplýst um. Hann setur örugglega mynd af því á fésbókina í dag :)