Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flutningsgeta Símans tvöfölduð í Garðinum
Frá Sveitarfélaginu Garði. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 7. febrúar 2017 kl. 12:00

Flutningsgeta Símans tvöfölduð í Garðinum

Síminn mun tvöfalda flutningsgetu sjónvarpsþjónustunnar í Garðinum. Undirbúningur stendur yfir og verður ráðist í stækkunina strax og honum lýkur. Við það hverfa truflanir í sjónvarpi bæjarbúa. Þetta kemur fram í svari Símans við fyrirspurn Víkurfrétta en mikillar óánægju hefur orðið vart í Garði vegna truflana í sjónvarpsveitu í gegnum netsambönd.
 
Aukinn gagnaflutningur á kerfum Símans olli truflununum. Síminn biður íbúa Garðsins velvirðingar á truflunum sem hafa verið í sjónvarpsþjónustunni. Þegar hefur verið gripið til ráðstafana sem eiga að minnka truflanirnar sem hverfa þegar kerfið verður eflt.
 
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að sjónvarpsþjónusta Símans hafi tekið miklum breytingum síðustu misseri. „Klukkustundunum í efnisveitu Símans hefur fjölgað um þúsundir. Meðal annars eru nú 6.000 klukkustundir undir í Sjónvarpi Símans Premium sem fólk horfir á þegar hentar. Einnig hefur notkun á Tímaflakki, sem gefur fólki tækifæri á að horfa á liðna dagskrá, aukist mjög með fleiri rásum. Þá hefur viðskiptavinum fjölgað. Breytt sjónvarpsnotkun kallar einfaldlega á öflugra samband og því stækkum við það nú.“
 
Varðandi orð forseta bæjarstjórnar um að það hafi komið Símanum á óvart hve víðfermdur vandinn var segir Gunnhildur að það sé rétt. „Við höfðum heyrt í hópi viðskiptavina og þegar óskað eftir stækkuninni, en að truflanirnar snertu svo marga eins og fram kom hjá Víkurfréttum vissum við ekki, enda aðeins brot af þeim fjölda haft samband, en sýnir enn betur hve nauðsynleg stækkunin er.“
 
Gunnhildur segir íbúa Garðsins eiga góða sjónvarpsþjónustu Símans skilið. „Við styrkjum nú sjónvarpsþjónustuna og sjáum einnig að til stendur að tengja yfir 200 heimili í Garðinum við Ljósnetið þegar vorar. Það horfir því til betri vegar,“ segir hún og ítrekar afsökunarbeiðni sína.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024