Flutningaskip sigldi næstum á Eldeyjardrang
Litlu munaði að illa færi í gærmorgun þegar erlent flutningaskip var nálægt því að steyta á Eldeyjardrangi, sem er tæpa tvo kílómetra suðvestur af Eldey á Reykjaneshrygg. Stýrimaður á togaranum Vigra hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar til að tilkynna að flutningaskipið væri komið út fyrir aðskildar siglingarleiðir og stefndi í hættu. Starfsmenn stjórnstöðvar kölluðu strax á skipið, þegar það var aðeins um eina og hálfa sjómílu frá Eldeyjardrangi svaraði loks skipverji í brúnni og kvaðst hann ætla að beygja þegar í stað.
Engin breyting varð hins vegar á stefnunni og því var kallað í annað flutningaskip í grenndinni og skipverjar þess, sem töluðu móðurmál þeirra sem stýrðu hinu skipinu, beðnir um að koma þessum áríðandi boðum áleiðis. Þá var skipið, sem er tæp þrjú þúsund brúttótonn, tæpa sjómílu frá Eldeyjardrangi. Boðin virðast hafa skilað sér því skipið breytti um stefnu og sigldi framhjá dranginum. Það fór næst aðeins 0,26 sjómílur hjá skerinu, samkvæmt sjókortum er hafdýpið þar aðeins 7,9 metrar en hámarksdjúprista skipsins er 5,4 metrar. Því má segja að þarna hafi munað hársbreidd. Ljóst er að áhöfn Vigra sýndi mikla árvekni og góð viðbrögð þegar hún tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um málið og á hún þakkir skildar fyrir. Þá var mikið lán að talsstöðvarsamband náðist á milli skipsins sem um ræðir og þess sem gat komið boðunum áleiðis. Viðeigandi yfirvöldum var tilkynnt um atvikið.